Nýheimar þekkingarsetur vinnur um þessar mundir að verkefninu Hornafjörður náttúrulega. Verkefnið er á vegum Sveitarfélagsins Hornafjarðar og felur það í sér innleiðingu samnefndrar heildarstefnu í starf stofnana.
Um nýliðna helgi var í tengslum við verkefnið haldinn viðburðurinn Lifandi laugardagur í Nýheimum. Umhverfis- og loftslagsmál eru ein af fjórum áherslum stefnunnar og er apríl helgaður þeirri áherslu sem einnig var þema viðburðarins. Lifandi og skemmtileg stemning skapaðist í Nýheimum þar sem handverk var til sölu, flutt voru fræðsluerindi og tónlistaratriði á meðan börn og fullorðnir gátu gætt sér á vöfflum í boði sveitarfélagsins. Afþreying fyrir börn var í boði á bókasafninu þar sem mátti lesa, föndra og leika sér með leir en deginum lauk svo með léttri fræðslugöngu.
Við viljum þakka öllum þeim sem komu að framkvæmd viðburðarins með okkur og einnig þeim fjölmörgu sem mættu og tóku þátt. Það er markmið Nýheima að vera vettvangur samfélagsins til samveru og því er þátttaka íbúa í viðburðum sem þessum afar mikilvæg.