Í gær fór fram áhugavert örnámskeið í Nýheimum, í samstarfi við Þekkingarnet Þingeyinga, um frumkvöðlastarf með óáþreifanlegan menningararf. Setrið, ásamt Þekkingarnetinu, auk sjö annarra stofnana frá sex löndum eru nú að leggja lokahönd á NICHE verkefnið sem hlaut Erasmus+ styrk árið 2020.
Á námskeiðinu, sem var streymt frá Húsavík, var fjallað um hvað er óáþreifanlegur menningararfur og hvernig hægt er að móta sýn og stefnumörkun í frumkvöðlastarfi með þennan arf. Að örnámskeiðinu loknu svöruðu þátttakendur könnun um námsefnið en niðurstöður hennar verða nýttar í lokahnikk verkefnisins kennsluefninu til bóta. Í haust, þegar allir samstarfsaðilar hafa prófað kennsluefnið og bætt samkvæmt ábendingum þátttakenda, verður allt efni námskeiðsins þýtt á íslensku og gert aðgengilegt á vef verkefnisins og á verkefnasíðu Nýheima.
Kennsluefnið var þróað sérstaklega fyrir þetta verkefni eftir að samstarfslöndin rannsökuðu stöðu óáþreifanlegs menningararfs og vinnu með hann í sínum löndum. Efnið er ætlað öllum þeim sem áhuga hafa á að vinna með óáþreifanlegan menningararf en getur einnig nýst öðrum frumkvöðlum.
Kennsluefninu er skipt í tíu kafla:
- Samskipti og þekkingarmiðlun
- Lykilatriði við verndun óáþreifanlegs menningararfs
- Þróun sýnar
- Að vinna með óáþreifanlegan menningararf
- Stafrænt læsi og gagnavernd
- Framkvæmd
- EntreComp ramminn fyrir óáþreifanlegan menningararf
- Fjármálafræðsla og stjórnendalæsi
- Samskipti og samstarf með stafræna miðlun
- Að deila þekkingu og jafningjanám
Á örnámskeiðinu var farið í kafla 3, þróun sýnar og kafla 4, að vinna með óáþreifanlegan menningararf.
Fimm þátttakenndur sátu námskeiðið í Nýheimum, ásamt starfsfólki setursins, en fleiri þátttakenndur tóku þátt í gegnum netið.
Við þökkum öllum þátttakenndum kærlega fyrir komuna.