Fyrirhugað var að halda fyrsta ársfund nýstofnaðra Samtaka þekkingarsetra á Höfn í síðustu viku en vegna aðstæðna í samfélaginu var ákvðeið að halda fundinn í fjarfundaformi að þessu sinni. Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra var sérstakur gestur fundarins.
Auk Nýheima þekkingarseturs eru Asturbrú, Þekkingarnet Þingeyinga, Þekkingarsetur Suðurnesja, Þekkingarsetur Vestmannaeyja, Háskólafélag Suðurland og Þekkingarsetur Blönduósi aðilar að Samtökum Þekkingarsetra. Forstöðumenn allra setranna tóku þátt og ávarpaði Lilja í upphafi fundar og ræddi m.a. um mikilvægi sterkra innviða fyrir menntaþjónustu og rannsóknir í byggðum landsins.
Óli Halldórsson forstöðumaður Þekkingarnets Þingeyinga sá um almenna kynningu þekkingarsetranna fyrir hönd samtakanna en forstöðumenn hverrar stofnunar kynntu svo verkefni og áherslur hverrar stofnunar. Fundarmenn áttu svo gagnlegar samræður við ráðherra um málefni þekkingarsetranna, m.a. um framtíðarhlutverk þeirra sem innviðir menntakerfis byggða landsins og aukin tengsl við atvinnulífið og nýsköpunarstarf.
Hugrún Harpa, forstöðurmaður Nýheima þekkingarsetur, er áframhaldandi formaður Samtaka þekkingarsetra.