Nýheimar þekkingarsetur hlýtur Örvarsstyrk til verkefnis fyrir ungt fólk

Nýheimar þekkingarsetur hlaut styrk úr Örvari í vor vegna verkefnisins ,,Samfélagið okkar – Ungt fólk í Hornafirði“. Örvar er sjóður á vegum Menningar-, nýsköpunar og háskólaráðuneytisins sem veitir styrki til verkefna og viðburða sem tilheyra málefnasviði ráðuneytisins.  

Sótt var um verkefnið til stuðnings HeimaHafnar, þróunarverkefnis Nýheima þekkingarseturs og Sveitarfélagsins Hornafjarðar. Verkefnið miðar að valdeflingu ungs fólks til virkni og áhrifa í eigin samfélagi. Því er ætlað að styðja við færni ungmenna til rýni og miðlunar á málefnum samfélagsins frá þeirra sjónarhóli, hvetja til hugarfarsvaxtar, nýsköpunar og frumkvæðis þar sem unnið verður að greiningu á tækifærum og áskorunum samfélagsins. 

Rannsóknir sýna að sterk tengsl við samfélagið skipta lykilmáli þegar kemur að byggðafestu ungmenna. Slík tengsl skapast best með virkri og fjölbreyttri samfélagsþátttöku. Til að stuðla að þeirri þátttöku er mikilvægt að rækta hugarfar vaxtar, nýsköpunar og frumkvæðis. Markmið verkefnisins er að efa ungt fólk til þess að taka virkan þátt í að móta sitt eigið hlutverk og stöðu í samfélaginu. Einnig er leitast við að styðja við og efa færni þeirra til þess að láta rödd sína heyrast svo þau geti betur komið sinni upplifun á framfæri.  

Til þess að ná þeim markmiðum verður unnið með ungmennum að mótun og gerð myndefnis sem tjáir þeirra sýn og upplifun á tilteknum viðfangsefnum samfélagsins.