Lóan styrkir nýsköpunarhringferð um landsbyggðina

Samtök þekkingasetra fengu úthlutaðan Lóustyrk í vor úr Menningar- nýsköpunar og háskólaráðuneytinu. Lóu- nýsköpunarstyrkir eru veittir til eflingar nýsköpunar á landsbyggðinni í samræmi við nýsköpunarstefnu stjórnvalda. Í Samtökum þekkingarsetra eru Austurbrú – þekkingarsetur, Háskólafélag Suðurlands, Nýheimar þekkingarsetur, Textílmiðstöð Íslands – þekkingarsetur á Blönduósi, Þekkingarnet Þingeyinga, Þekkingarsetur Suðurnesja og Þekkingarsetur Vestmannaeyja. 

Verkefnið sem sótt var um er samstarf KPMG, Iceland Innovation Week og Samtaka þekkingarsetra og snýst um að efla nýsköpun og stafræna hæfni á landsbyggðinni með hringferð um landið. Í gagnvirkum vinnustofum verður áhersla á hagnýtingu gervigreindar, skapandi hugsun og frumkvöðlastarfsemi, til að styrkja samkeppnishæfni, verðmætasköpun og auka sjálfstraust þátttakenda við eigin þróunarverkefni. 

Vinnustofurnar verða haldnar hjá þekkingarsetrunum sjö sem eiga aðild að Samtökum þekkingarsetra. Við í Nýheimum þekkingarsetri hlökkum til að taka á móti KPMG sem mun leiða vinnustofu á Höfn á haustdögum. Dagsetning verður auglýst síðar.