Heimasíða HeimaHafnar

Heimasíða HeimaHafnar er komin í loftið á slóðinni www.heimahofn.is. 

HeimaHöfn er samstarfsverkefni Nýheima þekkingarseturs og Sveitarfélagsins Hornafjarðar sem í sameiningu fjármagna 50% stöðu verkefnastjóra. Hugmyndin að verkefninu kviknaði undir lok árs 2023 og hefur þróast með tímanum í samstarfi við fjölbreyttan hóp lykilaðila.  Með verkefninu er sjónum beint að þróun og sjálfbærni byggðar og samfélags með ungt fólk í forgrunni. Með ólíkum verkþáttum er unnið markvisst að því að stuðla að jákvæðri upplifun og  viðhorfi ungmenna til framtíðarinnar í Sveitarfélaginu Hornafirði. Verkefnið felur í sér náið samstarf með ungu fólki, skólum, atvinnulífi, félagasamtökum og öðrum hagaðilum á svæðinu sem vinna sameiginlega að markmiðum verkefnisins með ólíkum leiðum. Sem dæmi um viðfangsefni má nefna miðlun upplýsinga um fjölbreytt tækifæri til menntunar og atvinnu á svæðinu. Auk þess er unnið að því að efla og viðhalda tengslum við ungmenni, efla félagslega virkni þeirra og samfélagsþátttöku. Einnig er áhersla á að viðhalda tengslum við ungmenni sem fara annað, til dæmis í nám. 

Á heimasíðunni má nálgast ítarlegar upplýsingar um verkefnið og samfélagið í Sveitarfélaginu Hornafirði, ásamt því að þar eru skráningareyðublöð aðgengileg. 

Við hvetjum íbúa til þess að kynna sér HeimaHöfn enda snertir verkefnið okkur öll sem búum hér í sveitarfélaginu með einum eða öðrum hætti, þar sem helsta markmið verkefnisins er að hlúa að unga fólkinu okkar og þar með sameiginlegri framtíð okkar 

Líkt og gjarnan er með hugsjónastarf þá getur fjármögnun verið mikil áskorun og aðkoma sveitarfélagsins því mikilvæg. Fjárlaganefnd styrkti verkefnið um fimm milljónir króna fyrir árið 2025 en í því felst einnig mikil viðurkenning á gildi verkefnisins fyrir samfélagið. Fjármögnun HeimaHafnar til framtíðar er forsenda þess að hægt verði að sinna verkefninu af krafti og tryggja framgang þess. Við hvetjum nærsamfélagið til að styðja við verkefnið með því að skrá fyrirtækin í sveitarfélaginu til þátttöku, taka á móti ungu fólki í kynningar og störf, miðla þekkingu og tækifærum, styðja við með fjárframlagi eða koma með tillögu að samstarfi sem hentar hverjum og einum aðila. 

Hægt er að hafa samband við verkefnastjóra HeimaHafnar, Eyrún Fríðu (eyrun@nyheimar.is) til að fá nánari upplýsingar eða taka þátt í verkefninu.