HeimaHöfn kynnir framtíðartækifæri ungs fólks

HeimaHöfn heldur áfram í samstarfi við Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu og býður upp á uppbrot í skólastarfi með fræðslu og valdeflingu í hverjum mánuði. Áhersla þetta fyrsta starfsár verkefnisins er lögð á fjölbreytt tækifæri til náms og starfa á svæðinu, nú og í framtíð. Í liðinni viku fengu allir staðnemar FAS boð á vinnustofu með frumkvöðlinum og ráðgjafanum Svövu Björk Ólafsdóttur sem leiddi hópinn í vinnustofu um þróun hugmynda, lausnamiðaða hugsun og tækifæri framtíðarinnar.

Nemendum FAS var skipt í hópa sem tækluðu fjölbreyttar áskoranir samfélagsins, svo sem matar- og fatasóun, verðbólgu og húsnæðisframboð fyrir ungt fólk. Nemendahóparnir kynntu svo niðurstöður sínar með svokölluðum leifturræðum þar sagt er hnitmiðað og skýrt frá áskoruninni, lausn og útfærslum. Mörg mál voru leyst og margar hugmyndir kviknuðu. Við þökkum Svövu kærlega fyrir að miðla af reynslu sinni til hópsins.

Í þessari viku var síðasta uppbrot ársins með skólanum þegar Verkfærni tók á móti hópnum í Sindrabæ. Verkfærni er aðalverktaki framkvæmdanna sem nú eru í gangi og mun ljúka í ágúst. Miklar breytingar eiga sér stað og gaman að sjá húsið, sem allir þekkja svo vel, í miðju breytingaferlinu. Sædís eigandi Verkfærni og Trausti verkstjóri kynntu fyrirtækið, verkefnið, þann fjölda iðnmenntaðra einstaklinga sem kemur að framkvæmdinni og hvernig iðnmenntun er upp byggð og nýtist í fjölbreytt störf. Við þökkum Verkfærni kærlega fyrir að taka á móti okkur og miðla sinni þekkingu til hópsins. Verkfærni getur tekið að sér nema á sveinssamning og bjóða þannig uppá tækifæri fyrir ungt fólk að nema sína iðn í sveitarfélaginu.

Vinnustofur með Svövu

Heimsókn í Sindrabæ