Kynningarfundur fyrir atvinnulífið

Miðvikudaginn 26. mars hélt Nýheimar þekkingarsetur kynningu fyrir atvinnulífið í Sveitarfélaginu Hornafirði, í fundarsal Nýheima. Fundurinn var haldinn til þess að gera fyrirtækjum og einstaklingum í atvinnurekstri kleift að kynna sér þá starfsemi sem Nýheimar þekkingarsetur býður upp á og þá þjónustu sem atvinnulífið getur sótt sér að kostnaðarlausu til setursins.

Þeir þættir í starfsemi setursins sem helst snúa að atvinnulífinu eru þrír: verkefnið HeimaHöfn, þjónusta byggða- og nýsköpunarfulltrúa Sveitarfélagsins Hornafjarðar og þjónusta byggðaþróunarfulltrúa Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS).

HeimaHöfn er samfélagsverkefni sem hefur það að markmiði að efla tengsl ungs fólks við atvinnulíf, menntun og samfélag í Sveitarfélaginu Hornafirði. Verkefnið miðar að því að styrkja samkeppnishæfni og aðdráttarafl Hornafjarðar sem framtíðarbúsetukosts. Með ólíkum verkþáttum er markvisst unnið að því að stuðla að jákvæðri upplifun og viðhorfi ungmenna til framtíðarinnar í sveitarfélaginu og efla tengsl þeirra við samfélagið. Eyrún Fríða Árnadóttir, verkefnastjóri þekkingarsetursins, hefur umsjón með HeimaHöfn ásamt Evu og Hugrúnu.

Í starfi byggða- og nýsköpunarfulltrúa er lögð áhersla á að styðja við þróun samfélagsins með fjölbreyttum verkefnum sem efla atvinnulíf, nýsköpun og byggðaþróun í sveitarfélaginu. Starfið byggir á samstarfssamningi sveitarfélagsins og Nýheima þekkingarseturs. Nejra Mesetovic, verkefnastjóri setursins, gegnir hlutverki byggða- og nýsköpunarfulltrúa.

Hugrún Harpa Reynisdóttir forstöðumaður Nýheima þekkingarsetursog Eva Bjarnadóttir verkefnastjóri gegna hlutverki byggðaþróunarfulltrúa Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) á Suðausturlandi. Í því felst þjónusta og ráðgjöf til einstaklinga og fyrirtækja í tengslum við atvinnuþróun, nýsköpun og menningu, oft í tengslum við Uppbyggingarsjóð Suðurlands.

Á næstu mánuðum er markmið setursins að heimsækja fyrirtæki í sveitarfélaginu og halda áfram að kynna starfsemina. Ef þú hefur áhuga á að fá heimsókn í þitt fyrirtæki  geturðu sent okkur línu á nyheimar@nyheimar.is – við verðum í sambandi og finnum hentugan tíma.