Nýheimar þekkingarsetur heimsótti Stryn í Noregi
Dagana 13.–17. janúar fóru starfsmenn Nýheima þekkingarseturs í heimsókn til Stryn í Noregi til að hitta samstarfsaðila sína þaðan, Nordfjordkompaniet og samstarfsaðila frá Söderhamn í Svíþjóð, Centrum för flexibelt lärande. Markmið heimsóknarinnar var að efla tengsl, miðla þekkingu og þróa verkefni sem snýr að valdeflingu ungs fólks.
Í heimsókninni var unnið að undirbúningi umsóknar til Nordplus fyrir samstarfsverkefni sem miðar að því að greina þær áskoranir sem ungt fólk stendur frammi fyrir hvað varðar búsetuval. Verkefnið mun leggja áherslu á að fræða og auka skilning á helstu áhrifaþáttum við búsetuval auk þess að greina mögulegar leiðir til þess að efla og styrkja stöðu ungs fólks í dreifðum byggðum.
Hópurinn fékk einnig innsýn í starfsemi Nordfjordkompaniet, sem vinnur markvisst að því að fræða ungt fólk um tækifærin í heimabyggð. Kynningar og vettvangsferðir veittu innsýn í það hvernig Nordfjordkompaniet, fyrirtæki á svæðinu og öll skólastig vinna saman að því að auka þekkingu ungmenna á samfélagi sínu. Þessi þekking og innblástur mun nýtast sérstaklega vel fyrir áframhaldandi þróun á verkefni okkar HeimaHöfn.
Heimsóknin endaði svo á útsýnisferð um svæðið, þar á meðal í Loen, þar sem hópurinn naut stórbrotinnar náttúru.