Kallað er eftir ágripum erinda fyrir 11. ráðstefnuna um íslenska þjóðfélagið, sem haldin verður í Þekkingarsetrinu Nýheimum á Höfn í Hornafirði dagana 12.-13. maí 2017. Fræðafólk úr öllum greinum hug- og félagsvísinda er hvatt til að senda ágrip af erindum byggðum á eigin rannsóknum.
Yfirskrift ráðstefnunnar tengist því að á síðustu árum hafa augu fræðifólks og almennings opnast fyrir djúpstæðum áhrifum mannskyns á grunnferla Jarðar og lýsir hugtakið þeirri hugmynd að mannkynið og tilvist þess sé nú orðið jarðsögulegt afl í sjálfu sér. Að þessu sinni er sérstaklega óskað eftir erindum sem lúta að \”Mannöldinni\” með einhverjum hætti, en viðfangsefni ráðstefnunnar munu að öðru leyti ráðast af því efni sem fyrirlesarar kjósa sjálfir að ræða um. Hér verður því svigrúm fyrir fræðafólk úr öllum hug- og félagsvísindagreinum til að koma rannsóknum sínum á framfæri og deila með fræðasamfélaginu.
Miðað er við 20 mínútuna erindi, ásamt rúmum tíma til umræðna. Ágrip af erindum (hámark 250 orð) skulu berast eigi síðar en föstudaginn 31. mars n.k. til Hugrúnar Hörpu Reynisdóttur (hugrunharpa@nyheimar.is). Frekari upplýsingar má nálgast hjá Hugrúnu Hörpu en upplýsingar um skráningu og önnur praktísk mál verða sendar síðar.