Menntun

Menntahvöt Hornafjarðar

Menntahvöt Hornafjarðar er samstarfsverkefni menntastofnana á Hornafirði. Nýheimar þekkingarsetur leiðir verkefnið en samstarfsaðilar eru Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu, Fræðsluskrifstofa Sveitarfélagsins Hornafjarðar, Háskólafélag Suðurlands, Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Hornafirði og Fræðslunetið – símenntun á Suðurlandi.  

Markmið hópsins og tilgangur er að styðja við menntun íbúa á Suðausturlandi. Áhersla er lögð á miðlun upplýsinga um námstækifæri og hvatningu og stuðning við íbúa til að sækja sér hvers konar menntun og fræðslu. Sérstaklega verður lögð áhersla á tækifæri íbúa til menntunar óháð búsetu. Þá mun hópurinn leitast við að styðja við fyrirtæki og stofnanir til að efla starfsþróun og endurmenntun starfsmanna sinna.    

Nánari upplýsingar um starf Menntahvatar veita Hugrún Harpa og
Kristín Vala, Hvetjum við einnig alla sem vilja kynna sér ólík námstækifæri til þess að hafa samband og munu fulltrúar hópsins veita stuðning og ráðgjöf eftir bestu getu.   

Menntastoð Nýheima þekkingarseturs

Menntun er ein af fjórum stoðum Nýheima þekkingarseturs og er markmið setursins að efla menntun og miðlun þekkingar í samstarfi við mennta-, fræðslu- og rannsóknastofnanir. Eitt af megin markmiðum setursins er að stuðla að bættu framboði og aukinni fjölbreytni náms fyrir íbúa svæðisins alla ævi. Enn fremur að tryggja aðgengi íbúa að góðu námi. Nýheimar leggja ríka áherslu á eflingu og stuðning við fjarnám og mikilvægur liður í því er að skapa hvetjandi námsumhverfi fyrir nemendur þar sem þeim gefst kostur á að vera hluti af fræðasamfélagi og stunda nám á eigin forsendum í heimabyggð.

Eitt af föstu verkefnum setursins er þjónusta við háskólanema. Setrið hefur í samstarfi við Sveitarfélagið Hornafjörð veitt háskólanemum aðgang að námsveri í Nýheimum og í samstarfi við háskóla landsins sinnir setrið þjónustu við háskólanema vegna próftöku.

Þá hefur þekkingarsetrið í starfi sínu lagt áherslu á óformlega menntun og staðið fyrir ýmsum námskeiðum. Hafa þau námskeið mörg tengst þátttöku setursins í fjölþjóðlegum samstarfsverkefnum sem hafa verið styrkt af Erasmus+, menntaáætlun Evrópusambandsins. Námskeiðin hafa verið fjölbreytt og náð til ólíkra hópa samfélagsins. Þá hefur verið lögð rík áhersla á málefni ungs fólks í starfi setursins og það staðið fyrir fjölbreyttum námskeiðum fyrir ungmenni. Þar hefur verið lögð sérstök áhersla á valdeflingu, samfélagsþátttöku og sjálfstyrkingu ungmenna.    

Menntastofnanir Nýheima

Menntun og miðlun þekkingar, formleg og óformleg, er með ólíkum hætti viðfangsefni flestra stofnana innan Nýheima. Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu og Fræðslunet Suðurlands eru þær formlegu menntastofnanir sem starfa í Nýheimum. Nám í Framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu tengist list- og verkgreinum jafnhliða bóklegu námi til stúdentsprófs. Fræðslunetið – símenntun á Suðurlandi sér um og skipuleggur námskeið fyrir fullorðið fólk. Námskeiðin eru af ýmsum toga og býður einnig uppá einingabært nám á framhaldsskólastigi. Fræðslunetið skipuleggur námskeið eftir óskum fyrirtækja og stofnana og greinir einnig fræðsluþarfir hjá fyrirtækjum og stofnunum og útbýr fræðsluáætlanir.

Aðrar stofnanir koma í starfi sínu meira að óformlegri menntun og miðlun þekkingar. Stofnanir Nýheima hafa reglulega tekið á móti skólahópum, haldið erindi af ýmsum toga og skipulagt og veitt leiðsögn í vettvangsferðum. Jafnframt hafa stofnanir komið að framkvæmd námskeiða og miðlun þekkingar í gegnum þátttöku sína í fræðslutengdum verkefnum, innlendum og fjölþjóðlegum.

Þjónusta og aðstaða fyrir námsmenn í Nýheimum

Nýheimar þekkingarsetur býður alla háskólanema, hvort sem er í stað- eða fjarnámi velkomna í Nýheima til lengri eða skemmri tíma. Í Nýheimum geta nemar fengið aðgang að námsveri og hefur setrið einnig haft umsjón með fjarprófum háskólanema á Höfn. Nánari upplýsingar um þjónustu og aðstöðu fyrir námsmenn í Nýheimum má finna hér á síðunni undir flipanum Háskólanemar.

Þekkingarsetrið hefur einnig í auknum mæli haft umsjón með prófum á sviði símenntunar í samstarfi við skóla og stofnanir um landið.

Allar nánari upplýsingar um þjónustu þekkingarsetursins við námsmenn veitir Kristín Vala.

Bókasafn á Menningarmiðstöð Hornafjarðar er einnig í góðu samstarfi við nema. Þar gefst öllum kostur á að eignast bókasafnskort og fá almenna bókasafnsaðstoð, m.a. vegna heimildaleitar, millisafnaláns, prentunar, ofl.

Fræðsluefni

Skúmaskot

Fræðslumyndband um skúminn sett saman úr stiklum sem teknar voru við rannsóknir á varpi skúms á Suðausturlandi. Myndbandið er unnið af Lilju Jóhannesdóttur starfsmanni Náttúrustofu Suðausturlands og var gert árið 2022. Myndbandið var styrkt af Uppbyggingarsjóði sunnlenskra sveitafélaga og er hluti af örmyndbandagerðinni Vísbandi.

Staða og hluverk þekkingarsetra í byggðaþróun

Anna Guðrún Edvardsdóttir, rannsakandi og sérfræðingur við Háskólann á Hólum ræðir stöðu og hluverk þekkingarsetra í byggðaþróun.