Nýheimar: Vettvangur skapandi samvinnu
Samstarfsaðilar
Nýheimar þekkingarsetur er samstarfshattur fjölbreyttra stofnana sem starfa á sviði menntunar, menningar, nýsköpunar og rannsókna á Suðausturlandi. Aðilar að setrinu eru meðal annars: Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu, Fræðsluskrifstofa Hornafjarðar, Háskólafélag Suðurlands, Matís, Menningarmiðstöð Hornafjarðar, Náttúrustofa Suðausturlands, Nýsköpunarmiðstöð, Ríki Vatnajökuls, Samband sunnlenskra sveitarfélaga, Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands, Vatnajökulsþjóðgarður og Vöruhúsið.
Markmið og hlutverk
Nýheimar þekkingarsetur er samstarfsvettvangur aðila sem starfa á sviði menntunar, menningar, nýsköpunar og rannsókna á Suðausturlandi. Setrið sameinar tólf ólíkar stofnanir og aðila í þeim tilgangi að efla samvinnu og skapa öflugt þekkingarsamfélag á Suðausturlandi.
Hjá Nýheimum þekkingarsetri starfa Hugrún Harpa Reynisdóttir forstöðumaður og Nejra Mesetovic verkefnastjóri.
Verkefni Nýheima þekkingarseturs taka mið af markmiðum setursins sem fram koma í skipulagsskrá. Áhersla er á verkefni sem styðja við samfélagsuppbyggingu og bæta lífsgæði íbúa svæðisins. Málefni ungs fólks eru í brennidepli í starfi setursins.
Verkefni setursins eru af ólíkum gerðum og þau má flokka á eftirfarandi hátt:
a. NÞ-verkefni: Verkefni að frumkvæði og forsjá Nýheima þekkingarseturs þar sem setrið fer að öllu leyti með framkvæmd og stjórnun verkefnisins.
b. Samstarfsverkefni: Verkefni sem lúta að hluta til forsjár Nýheima þekkingarseturs og setrið kemur að framkvæmd og/eða stjórnun verkefnisins eftir atvikum.
c. Stuðningsverkefni: Verkefnið er hvorki að frumkvæði né forsjá Nýheima þekkingarseturs. Setrið kemur einungis að verkefninu með stuðningi og/eða ráðgjöf eftir atvikum.
d. Þjónustuverkefni: Verkefni sem byggja á samstarfssamningi milli Nýheima þekkingarseturs og annarrar stofnunar.
Þótt starfsemi Nýheima þekkingarseturs snúi fyrst og fremst að nærsamfélaginu þá hefur í auknum mæli verið leitað eftir samstarfi við hliðstæð þekkingarsamfélög annars staðar á landsbyggðinni og einnig erlendis.
Samstarf við aðrar stofnanir
NÞ var stofnað til að efla samstarf aðila sem starfa á sviðum stoðanna fjögurra (menntun, menning, nýsköpun og rannsóknir) og skapa öflugt þekkingarsamfélag á Suðausturlandi. Nýheimar hafa vakið athygli fyrir gott samstarf þvert á stofnanir og verið öðrum fyrirmynd við eflingu þekkingarsamfélaga á landsbyggðinni.
Aðilar að Nýheimum eru af ólíkum toga og með fjölbreytt verkefna- og rannsóknasvið. Þessir aðilar eiga í virku samtali og hagnýtu samstarfi í þverfaglegum verkefnum og mynda þannig öfluga einingu með víðtæka þekkingu og reynslu. Samstarfið hefur ávallt miðað að því að stuðla að jákvæðri byggðaþróun landshlutans og bæta lífsgæði á svæðinu.
Ráðgjöf
Nýheimar þekkingarsetur hefur einnig gert samstarfssamning við SASS um ráðgjöf á sviði atvinnuþróunar, nýsköpunar og menningar. Tekjur setursins koma frá opinberu framlagi ríkisins, samstarfssamningum og sjálfsaflafé. Í Nýheimum þekkingarsetri starfa Hugrún Harpa Reynisdóttir, forstöðumaður, Kristín Vala Þrastardóttir og Nejra Mesetovic, verkefnastjórar.
Samtök þekkingarsetra (SÞS)
Nýheimar þekkingarsetur er aðili að Samtökum þekkingarsetra; samráðsvettvangi þekkingarsetra á landsbyggðinni sem starfa samkvæmt samningi við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Samtök þekkingarsetra hafa þann tilgang að efla samvinnu setranna, gæta sameiginlegra hagsmuna þeirra og efla skilning á mikilvægi starfseminnar.
Meðal samningsbundinna verkefna allra aðildarsetra eru rannsóknir og þróun til eflingar byggðar, þjónusta við háskólanema, hagnýting og miðlun þekkingar ásamt eflingu nýsköpunar, atvinnu og samfélagsþróunar.
Nýheimar þekkingarsetur er þátttakandi í samstarfshópum SÞS um rannsóknir og menntun.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna
Nýheimar þekkingarsetur hefur hafið innleiðingu heimsmarkmiðanna í starfsemi setursins. Við upphaf innleiðingarferlisins er megináhersla lögð á þrjú markmið ásamt samtals fimm undirmarkmiðum. Valin markmið og undirmarkmið eiga það öll sameiginlegt að tengjast með beinum hætti fjórum meginstoðum setursins; rannsóknum, menntun, nýsköpun og menningu.
Hefur þú athugasemdir við störf Nýheima þekkingarseturs?
Ef svo er þá höfum við, með stjórnarsamþykkt, skilgreint eftirfarandi farveg fyrir þjónustuþega, viðskiptavini, samstarfsaðila og nemendur:
Ef ágreiningur er uppi um ákvarðanir og/eða vinnubrögð starfsmanna Nýheima þekkingarseturs leitar þjónustunotandi/samstarfsaðili fyrst til forstöðumanns með erindi sitt
Ef ágreiningur leysist ekki með aðkomu forstöðumanns getur þjónustunotandi/samstarfsaðili borið erindi sitt upp við stjórn stofnunarinnar til afgreiðslu. Forstöðumaður kynnir þennan valkost og kemur þjónustunotanda/samstarfsaðila í samband við formann stjórnar hverju sinni.
Ágreiningsmál skulu borin upp með skriflegum, rekjanlegum hætti.