Í vikunni fóru starfsmenn setursins sem vinna að SPECIAL verkefninu á fund
með samstarfsaðilum á Húsavík. Verkefnið er styrkt af Erasmus+ og er
Þekkingarnet Þingeyinga umsóknaraðili og stjórnandi verkefnisins. Aðrir
þátttakendur koma frá Ítalíu, Spáni, Svíþjóð, Belgíu og Rúmeníu.
Verkefnið hófst haustið 2021 og líkur í október næstkomandi en þetta var síðasti fundur verkefnisins sem haldinn er í persónu. Meðal afurða verkefnisins er valdeflandi kennsluefni sem þróað var af samstarfsaðilunum, við hjá setrinu sáum um gerð kennsluefnis sem fjallaði um persónulega hæfniþætti og lífsleikni og prófuðum við efnið með 10. bekkingum nú á vormánuðum. Þar fjölluðum við um spurningarnar “hvað ætlar þú að verða þegar þú verður stór” og “hvernig ætlar þú að verða þegar þú verður stór”. Námsefnið fjallaði m.a. um samskipti og markmiðasetningu og nýttist vel með grunnskólanemunum enda viðfangsefnið þarft.
Ferðalagið norður var einnig vel nýtt til heimsókna og skoðunarferða í ný húsakynni Þekkingarnetsins á Húsavík og í Mývatnssveit. Á heimleið okkar heimsóttum við einnig kollega okkar í Austurbrú á Egilsstöðum. Það er alltaf gefandi að kynna sér starfsemi ólíkra aðila og fylgja ýmsar góðar hugmyndir okkur heim og veita innblástur fyrir starfsemi okkar seturs.