Fjölmargir einstaklingar leggja nú stund á háskólanám í fjarnámi frá heimilum sínum í Sveitarfélaginu Hornafirði. Mikið líf hefur verið á lesbásum háskólanema í Nýheimum í vetur og voru 60 háskólapróf haldin hjá setrinu á önninni, fimm miðannapróf og 55 lokapróf nú í enda árs. Að auki hafði setrið umsjón með 11 prófum á sviði símenntunar.

Viljum við hvetja þá sem stunda nám að nýta sér þá aðstöðu sem er þeim í boði í Nýheimum og verða þannig hluti af þekkingarsamfélaginu á Höfn. Í Nýheimum starfar einnig fjölbreyttur hópur sérfræðinga á mýmörgum sviðum sem getur liðsinnt háskólanemum á sínu fagsviði.

Við viljum nýta tækifærið og benda háskólanemum í Sveitarfélaginu Hornafirði á Vísinda- og rannsóknarsjóðs Suðurlands sem er nú alfarið í höndum Háskólafélags Suðurlands. Markmið sjóðsins er að styrkja stúdenta, sem eru að vinna að lokaprófsverkefni, til rannsóknarstarfa á Suðurlandi.

Opið fyrir umsóknir til 5. janúar 2024 og styrkþegum tilkynnt um úthlutun í lok janúar. Að venju verður styrkþegum boðið til hátíðarfundar Vísinda- og rannsóknarsjóðs þar sem þeir veita styrknum viðtöku úr hendi forseta Íslands. 

Frá upphafi sjóðsins hafa 42 verkefni fengið  styrk frá sjóðnum. Verkefnin eru af öllum toga og geta verið allt frá BA/BS verkefnum til doktorsverkefna. Umsóknarformið sem og sjóðsreglunr er aðgengilegt á heimasíðu félagsins þar sem einnig er hægt að kynna sér eldri verkefni sem hlotið hafa styrk úr sjóðnum.

Sjá nánar hér: Tímamót í sögu Vísinda- og rannsóknarsjóðs Suðurlands – Háskólafélag Suðurlands (hfsu.is)