Nýsköpunarnet Hornafjarðar er samstarfshópur stofnana sem vinna að málefnum nýsköpunar í Sveitarfélaginu Hornafirði. Nýheimar þekkingarsetur leiðir vinnu hópsins en auk setursins eru Vöruhúsið Fab Lab, atvinnu- og ferðamálafulltrúi Sveitarfélagsins og Háskólafélag Suðurlands þátttakendur í samstarfinu. Tilgangur hópsins er að auka samstarf stofnana og skapa öflugt nýsköpunarumhverfi heima í héraði þar sem stutt er við einstaklinga og fyrirtæki með þjónustu, ráðgjöf, fræðslu og aðstöðu.
Hópurinn leggur áherslu á að verkefni og viðfangsefni hans taki mið af þörfum einstaklinga og fyrirtækja á svæðinu. Til að tryggja að svo verði er okkur mikilvægt að skapa tengsl og ná samtali við hópinn um málefnið.
Til að hefja það samtal býður hópurinn í einyrkja- og frumkvöðlakaffi fimmtudaginn 8. febrúar klukkan 10:00 – 11:00 á bókasafninu. Vonum við að sem flestir kíki við í óformlegt og heimilislegt kaffispjall.