HeimaHöfn leitar að samstarfsaðilum
HeimaHöfn er nýtt þróunarverkefni á vegum Nýheima þekkingarseturs í samstarfi við Sveitarfélagið Hornafjörð. Verkefnið fjallar um ungt fólk og eflingu byggðar en markmið þess er að valdefla ungmenni á svæðinu og víkka sjóndeildarhring þeirra hvað varðar tækifæri til menntunar, atvinnu og samfélagsþátttöku í heimabyggð.
Verkefnið fór af stað síðastliðið vor með þróun og samráði við hagaðila, svo sem starfsfólk Fræðslu- og frístundasvið sveitarfélagsins, Grunnskóla Hornafjarðar og Framhaldsskóla Austur-Skaftafellssýslu (FAS). Einnig var leitast eftir innsýn ungmenna í útskriftarárgöngum grunnskólans og FAS auk Ungmennaráðs Hornafjarðar. Með innsýn þessara hópa var fyrsta ár þessa verkefnis þróað en lögð verður áhersla á kynningu á tækifærum til atvinnu á svæðinu þetta fyrsta starfsár. Hugmyndin gengur út á að ungmenni sveitarfélagsins fari út í lífið með góða þekkingu á framtíðartækifærum sínum í heimabyggð og fjölbreytta snertifleti við samfélagið. Einnig er unnið að gerð heimasíðu verkefnisins sem miðlar fjölbreyttum tækifærum og viðburðum í samfélaginu auk þess að bjóða upp á skráningu til upplýsingaöflunar og -miðlunar fyrir fólk, fyrirmyndir og fyrirtæki.
Verkefnið hófst með hvelli í upphafi skólaársins þegar öllum nemendum 9. og 10. bekkjar grunnskólans og staðnemum FAS var boðið til í fjölbreyttum vinnustofum. Nemendahópurinn nær til um 90 ungmenna sem skipt var í smærri einingar til vinnu í sex málstofum. Þar fengu nemendur tækifæri til að ræða framtíð sína, atvinnulíf, þátttöku í samfélaginu auk fleiri mála sem brenna á þeim. Dagurinn heppnaðist einstaklega vel og eins og sjá má á meðfylgjandi myndbandi:
Vertu með í þessu einstaka tækifæri fyrir fyrirtæki til að leggja sitt af mörkum til samfélagsins, efla tengsl við næstu kynslóðir starfsfólks og sýna fram á fjölbreytta atvinnuflóru á svæðinu. Fyrirtæki sem hafa áhuga á að taka þátt eru hvött til að hafa samband við verkefnastjóra HeimaHafnar, Kristínu Völu, kristinvala@nyheimar.is.