Ársfundur Nýheima þekkingarseturs var haldinn í gær 10. apríl í Nýheimum en á dagskrá voru hefðbundin ársfundarstörf í samræmi við samþykktir setursins.

Árið 2018 var fimmta heila starfsár Nýheima þekkingarseturs, tólf stofnanir eru aðilar að Nýheimum þekkingarsetri en við upphaf ársins voru starfsmenn þess þrír.

Kristín Hermannsdóttir formaður til síðustu tveggja ára kynnti skýrslu stjórnar og Hugrún Harpa forstöðumaður fór yfir starfsskýrslu ársins 2018 og sagði frá helstu verkefnum setursins á komandi mánuðum.

Ársreikningur setursins var kynntur og samþykktur og skipað í embætti nýrrar stjórnar. Skipan í embætti er eftirfarandi: Formaður er Vilhjálmur Magnússon, varaformaður er Steinunn Hödd Harðardóttir, gjaldkeri er Eyrún Helga Ævarsdóttir og ritari er Kristín Hermannsdóttir. Góðar umræður voru í lok fundar um helstu tækifæri og áskoranir setursins.

Verkefni og viðfangsefni setursins eru fjölbreytt og spennandi og má þar helst nefna eftirfarandi verkefni:

– Ráðgjöf og verkefnavinna í samstarfi við Samtök sunnlenskra sveitarfélaga
– Þjónusta við háskólanema vegna námsaðstöðu og fjarprófa
Loftlag og leiðsögn í samstarfi við FAS og Vatnajökulsþjóðgarð
– Sjálbærir norrænir bæir í samstarfi við Sveitarfélagið Hornafjörð
– Frístund – kynning á starfi sjálfboðaliða- og félagasamtaka
– Nýheimafréttir – kynningarbæklingur um starfsemina
– Staða og hlutverk þekkingarsetra í byggðaþróun – samstarfsverkefni með
Rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Höfn, Þekkingarneti Þingeyinga á Húsavík og Háskólafélag Suðurlands á Selfossi
Tvö erasmus+ verkefni, KNOW HUBs og Sustain it
– Ráðgjöf vegna gerðar stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir Breiðamerkursand, unnið fyrir Vatnajökulsþjóðgarð
– Umsjón með Matarsmiðju sveitarfélagsins
– auk fjölda smærri verkefna