Góður íbúafundur um úrgangsstjórnun

Íbúafundur um úrgangsstjórnun var nýlega haldinn. Fundurinn var skipulagður með það að markmiði að upplýsa samfélagið um úrgangsstjórnun og hvernig við getum öll tekið þátt í að bæta umhverfið með aukinni vitund og réttum aðgerðum.

Þátttakendur fengu innsýn í það hvernig mismunandi tegundir úrgangs eru meðhöndlaðar og hvaða skref þeir geta tekið til að draga úr eigin kolefnisspori.  Líflegar umræður sköpuðust um hvernig samfélagið getur stuðlað að betri úrgangsstjórnun og bættri umhverfisvitund.

Hægt er að skoða glærur  frá fundinum hér: Glærur

Helstu atriði sem komu fram á fundinum:

  • Nýjar reglugerðir: Sveitarfélagið samræmir úrgangsstjórnun við nýju hringrásarlögin frá 2024, sem krefjast skylduflokkunar í sjö flokka og breytilegra gjalda byggð á úrgangsframleiðslu, það er pappír og pappa, plasti, lífúrgangi, málmum, gler, textíl og spilliefnum.
  • Viðbótarþjónusta í dreifbýli: Þar sem lífrænn úrgangur er ekki sóttur á dreifbýlissvæðum er sveitarfélagið að leita að lausnum og tekur fagnandi á móti tillögum frá íbúum.
  • Gæði endurvinnsluefna: Rétt flokkun snýst ekki aðeins um magn – hún snýst líka um gæði: alltaf að aðskilja pappír frá plasti og halda endurvinnanlegu efni hreinu svo það megi fara í endurvinnslustöðvar. Mundu einnig að allt sem sett er í blandaðan úrgang endar í urðun, svo reyndu að minnka magn blandaðs úrgangs eins og mögulegt er.
  • Áhættuúrgangur: Sérstök meðhöndlun er á lyfjaleifum, rafhlöðum og öðrum spilliefnum sem geta haft skaðleg áhrif á umhverfið ef þau fá ekki rétta meðferð. Íbúar eiga að skila þessum úrgangi á tilgreinda móttökustaði.
  • Sérstakar ráðstafanir fyrir fyrirtæki: Fyrirtæki bera ábyrgð á eigin úrgangi og þurfa að tryggja að málmar, gler og plast séu flokkuð sérstaklega. Þetta auðveldar sveitarfélaginu að safna gögnum og finna leiðir til að draga úr úrgangi.
  • Þróun á gjaldtöku: Gert er ráð fyrir að framtíðaruppfærsla á gjaldtökukerfinu muni miða við þyngd frekar en rúmmál, sem gefur nákvæmari mynd af úrgangsframleiðslu heimila og fyrirtækja.

 

Heildarlosun koltvísýrings af völdum úrgangs í Sveitarfélaginu Hornafirði jókst úr 1.189,2 tonnum CO2 árið 2022 í 1.196,4 tonn CO2 árið 2023. Þetta undirstrikar að þrátt fyrir minnkun í losun frá farartækjum og flugi, þá er losunar koltvísýrings stórt vandamál og eitt af helstu viðfangsefnum sveitarfélagsins.

Skýringarmyndin sýnir losun gróðurhúsalofttegunda í sveitarfélaginu, þar sem tekin er saman losun sem verður til vegna úrgangs frá heimilum, fyrirtækjum og stofnunum. Hins vegar sýna gögn um samgöngur eingöngu losun frá sveitarfélaginu og stofnunum, svo hlutföllin geta verið skekkt að einhverju leyti. En myndin undirstrikar engu að síður hve mikil áhrif úrgangur hefur á heildarlosun gróðurhúsalofttegunda.

Leiðbeiningar um flokkun úrgangs má nálgast á heimasíðu Sorpu, einnig geturðu skoðað flokkunarleiðbeiningar sveitarfélagsins á netinu, leitað til starfsmanna í flokkunarstöðinni eða sent tölvupóst til að fá aðstoð (afgreidsla@hornafjordur.is)