Staða og líðan ungra karlmanna í landsbyggðarsamfélagi er heiti greinar sem birtist í sérhefti Íslenska þjóðfélagsins um byggðarannsóknir (2023, Bnd. 14, nr. 2) sem gefið var út, í lok árs 2023, af Félagsfræðingafélagi Íslands. Greinin byggir á niðurstöðum rannsóknar samnefnds verkefnis sem Nýheimar þekkingarsetur vann að árið 2021 í samstarfi við Önnu Guðrúnu Edvardsdóttur og Óskar Kristjánsson. Verkefnið hlaut styrk úr Atvinnu- og rannsóknasjóði Sveitarfélagsins Hornafjarðar og Nýsköpunarsjóði námsmanna.  

Markmið rannsóknarinnar var að skoða á hvaða hátt samfélagsleg gildi og orðræða hefur áhrif á frammistöðu og líðan ungra karlmanna í því samfélagi sem þeir búa í og hvernig það birtist í námsgengi þeirra, líðan og framtíðaráformum. Niðurstöður gefa til kynna að samfélagsleg gildi og orðræða um ríkjandi karlmennsku hafi áhrif á ungt fólk, sérstaklega unga karla. Nánar má lesa um niðurstöður rannsóknarinnar í greininni.