Hagtölur um atvinnulíf frá SASS

Home / FRÉTTIR / Hagtölur um atvinnulíf frá SASS

Síðustu mánuði hafa Samtök sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) lagt mikla áherslu á viðbrögð og greiningu áhrifa COVID-19 á samfélagið og úthlutaði m.a. strax í vor styrkjum til 96 ferðaþjónustufyrirtækja á Suðurlandi í gegnum verkefnið Sóknarfæri ferðaþjónustunnar . Nú hefur SASS einnig gefið út greiningu á stöðu og þróun atvinnulífs á Suðurlandi með áherslu á ferðaþjónustu.

Hagtölur um atvinnulíf á Suðurlandi með sérstaka áherslu á ferðaþjónustu gefur meðal annars upplýsingar um rekstrartekjur greinarinnar, fjölda starfa og hlutfall erlendra ríkisborgara sem starfa í greininni. Til hagnýtingar eru allar upplýsingarnar sundurliðaðar á hvert sveitarfélag á Suðurlandi

Hér má lesa nokkrar af helstu niðurstöðum greiningarinnar eru en meira má lesa um verkefnið á vef sass.is

  • Störfum fjölgaði mikið á Suðurlandi á tímabilinu 2012 til 2019 eða um 3.491 einstaklinga í aðalstarfi. Störfum í ferðaþjónustu fjölgaði um 1.937 eða 55,4% allra nýrra starfa. Íbúum fjölgaði á sama tíma um 4.834.
  • Í þeim sveitarfélögum þar sem vægi ferðaþjónustunnar er hvað hæst er mest fjölgun aðalstarfa á milli ára. Ferðaþjónustustörfum fjölgaði sem dæmi um 634% á milli áranna 2009 – 2019 í Mýrdalshreppi. Árið 2019 var rúmlega helmingur aðalstarfa í Mýrdalshreppi í ferðaþjónustu eða 52,3%. Árið 2009 var hlutfallið þar 15,3%. Næst hæst, árið 2019, var hlutfallið í Skaftárhreppi, 51,1%. Lægst, árið 2019, var hlutfallið í Ölfusi, 10,3%.
  • Tæplega 100 ma.kr. voru greiddar í heildarlaun á Suðurlandi árið 2019. Meðallaunin voru 498 þús. á mánuði. Launþegar á skrá voru 22 þús. einstaklingar. Hæst meðallaun voru í Vestmannaeyjum eða 562 þús. á mánuði.
  • Heildarlaun í ferðaþjónustu voru tæpar 16 ma.kr. eða tæplega 16% heildarlauna á Suðurlandi. Meðallaun í ferðaþjónustu á Suðurlandi voru 423 þús. á mánuði árið 2019 eða um 15% lægri en meðallaun almennt á Suðurlandi á sama tíma. Hæst meðallaun í ferðaþjónustu voru í Vestmannaeyjum eða 513 þús. á mánuði.
  • Ferðþjónustan skapar 18,8% starfa á Suðurlandi og 16% launa.
  • Ársverk í ferðaþjónustu voru 3.124 á árinu 2019. Þar af voru erlendir ríkisborgarar 1.517 (48,6%) og íslenskir ríkisborgarar 1.607 (51,4%). Hlutfall erlendra ríkisborgara af öllu atvinnulífinu á Suðurlandi er 21,4%.
  • Hlutfall rekstrartekna í ferðaþjónustu af heildar rekstrartekjum allra atvinnugreina á Suðurlandi á árinu 2018 var 17% á Suðurlandi. Hæst var hlutfallið í Mýrdalshreppi, 78,7% og þar á eftir í Skaftárhreppi, 55,1%. Lægst var hlutfallið í Vestmannaeyjum, 3,9%.
  • Um 13% fyrirtækja á Suðurlandi starfa í ferðaþjónustu.
  • 41% ársverka erlendra ríkisborgara á Suðurlandi voru í ferðþjónustu.

Hér má sjá að einstaklingum í aðalstarfi í ferðaþjónustu hefur fjölgað um 455% í Sveitarfélaginu Hornafirði á tíu árum 2009-2019)

 

 

Nýheimar þekkingarsetur á í nánu og góðu samstarfi við SASS og sinnir setrið einu stöðugildi fyrir samtökin í verkefnavinnu og ráðgjöf í Hornafirði.

Ráðgjafi SASS í Nýheimum er Guðrún Ásdís Sturlaugsdóttir (gudrun@nyheimar.is). Vertu velkomin(n) að hafa samband.