\"Mat1

Sannkallaður sælkeradagur var haldinn að Hólmi á Mýrum miðvikudaginn 20. maí. Viðburðurinn var ætlaður öllum þeim sem áhuga hafa á að auka veg matvæla úr héraði og var hann vel sóttur jafnt af bændum, aðilum úr ferðaþjónustu, veitingamönnum og matvælaframleiðendum. Fjölbreytt og góð dagskrá var fyrir gesti sem samanstóð af fróðlegum erindum frá Matís og reynslusögum frá frumkvöðlunum Elínu Oddleifsdóttur frá Seljavallakjötvörum og Erlendi Björnssyni frá Handsverkssláturhúsinu Seglbúðum í Skaftárhreppi. Einnig kynnti Ómar Frans nýjungar frá Sólskeri, s.s. reykt þorskhrogn og léttreyktan karfa. Þá bauð veitingafólkið í Hólmi upp á mat úr héraði, dýrindis kjötsúpu með byggi og kartöfluköku í eftirrétt.

Á meðal þess sem kom fram var hvernig heimamenn nýttu sér framleiðslu á matvælum úr héraði sem bjargráð eftir efnahagshrunið 2008 og hvernig samspilið við aukna ferðamennsku á svæðinu blés greininni byr í seglin. Einnig kom fram að heilmikil sóknarfæri felast í matvælaframleiðslu í héraði, en þar skiptir matvælaöryggi, fagmennska og gott aðgengi að mörkuðum lykilmáli. Flutt var erindi um vöru- og umbúðahönnun og hversu þýðingarmikil framsetning er þegar verið er að koma vöru á markað. Þá kynnti Háskólafélag Suðurlands Matvælabrúna sem er nýtt nám í matvælaiðnaði þar sem áhersla er  lögð á stjórnun og nýsköpun ásamt
markaðs- og rekstrarfræði auk sérstakra námskeiða í matvælatengdum fræðum.

\"Mat2

Undirliggjandi málefni fundarins var framtíð Matvælasmiðju Matís á Höfn. Fram kom að mörg góð verkefni hafa komið út úr Matarsmiðjunni og vildu margir fundargestir meina að verkefnin hefðu ekki orðið að veruleika ef ekki hefði verið fyrir tilstuðlan hennar. Þá kom einnig fram að horft hefur verið til Matarsmiðjunnar á Höfn sem fyrirmyndar fyrir samskonar smiðjur víða um landið. Meðal verkefna sem eiga rætur að rekja til  Matarsmiðjunnar á Höfn og eru flest orðin sjálfbær eru: Geitaafurðir frá Fallastakki, Hólabrekkuafurðir, Humarkokkur, Miðskersbúið, Seljavallakjötvörur, Sólsker og Öræfabiti.

Nú eru tækifæri fyrir nýja aðila að nota Matarsmiðjuna. Áhugafólk um matvælagerð er hvatt til að nýta sér aðstöðuna og þann stuðning sem býðst hér á svæðinu. Nína Síbyl Birgisdóttir, starfsmaður Matís á Höfn, ásamt sérfræðingum Matís í Reykjavík, eru reiðubúin til aðstoðar.

Á næstu dögum verður gerð könnun á áhuga og vilja til notkunar á Matarsmiðju Matís á Höfn. Matvælaframleiðendur og fleiri munu fá netkönnunina senda. Einnig verður könnunin sett fram á heimasíðu sveitarfélagsins, hornfjordur.is, þar sem allir áhugasamir geta tekið þátt.

Árdís Erna Halldórsdóttir, atvinnu- og ferðamálafulltrúi Sveitarfélagsins Hornafjarðar

Davíð Arnar Stefánsson, verkefnastjóri Þekkingarsetursins Nýheima

Fanney Björg Sveinsdóttir, verkefnastjóri og ráðgjafi SASS á Hornafirði

Nína Síbyl Birgisdóttir, starfsmaður Matís á Hornafirði

Olga Ingólfsdóttir, framkvæmdastjóri Ríki Vatnajökuls