Nýheimar þekkingarsetur og Þekkingarnet Þingeyinga skrifuðu á haustmánuðum 2017 undir samstarfssamning með það markmið að auka samvinnu stofnananna á breiðum grundvelli, sér í lagi að auka samstarf um ýmis verkefni og rannsóknir með áherslu á svæðisbundnar aðstæður og byggðamál.

Þekkingarnet Þingeyinga sinnir sambærilegum verkefnum og Nýheimar þekkingarsetur og er starfsvæði Þekkingarnetsins víðfeðmt, Norður og Suður Þingeyjasýslur, og starfsstöðvar á Húsavík, Mývatni og Þórshöfn auk próftöku og námsaðstöðu á Raufarhöfn, Kópaskeri, Reykjadal og Bárðardal.

Í síðustu viku fóru starfsmenn Nýheima þekkingarseturs í heimsókn í höfuðstöðvar Þekkingarnetsins á Húsavík og fengu góða kynningu á starfsemi Þekkingarnetsins auk þess að funda m.a. um eftirfarandi samstarfsverkefni:

 

Sustain it – Sjálfbærni í ferðaþjónustu – nýsköpun í þjálfun starfsfólks.

Samstarfsverkefni sex evrópuþjóða sem styrkt er af Erasmus+

Markmið SUSTAIN IT er að auka samkeppnishæfni fyrirtækja í ferðaþjónustu sem vinna í anda sjálfbærar þróunar með því að þróa nýja, hagnýta og framkvæmanlega starfsmenntun fyrir stjórnendur í ferðaþjónustu. SUSTAIN IT starfsmenntunin mun annars vegar vera hefðbundin kennsla og hinsvegar fræðsla sem er aðgengileg á vefsíðunni.

Verkefnið hófst 2018 og er að ljúka nú um áramótin.

 

Niche (Nurturing Intangible Cultural Heritage for Entrepreneurship)

Verkefnið er styrkt af Erasmus+ og eru níu samstarfsaðilar sem taka þátt í þessu verkefni, víðsvegar um Evrópu. Verkefnið fjallar um óáþreifanlegan menningararf svo sem iðkun, framsetningu, tjáningu, þekkingu eða færni sem UNESCO telur hluti af menningararfi áfangastaða, undir þetta falla t.d. þjóðsögur, siðir, skoðanir, hefðir, þekking og tungumál. Markmið verkefnisins er að efla frumkvöðlastarf í þessum anga menningargeirans með því að þróa nýstárlegar aðferðir í fræðslu, auka samkeppnishæfni hans og viðhalda vexti. Verkefnið er til tveggja ára og hefst nú í nóvember.

 

Digital skills and competences of local communities in rural areas

Verkefnið er styrkt af Erasmus+ og er fyrsta slíka verkefni sem Nýheimar þekkingarsetur leiðir, auk Nýheima og Þekkingarneti Þingeyinga eru samstarfsaðilar frá fjórum Evrópulöndum. Verkefnið hefst í nóvember og er til tveggja ára.

Verkefnið fjallar um stafræn samskipti og snýst um að þróa stafræna færni íbúa í sveitarfélögum á landsbyggðinni og dreifðum byggðum. Áhersla er lögð á eldri borgara í þessu samhengi ásamt sjálfboðaliðum, leiðbeinendum og umönnunaraðilum. Gerð verður úttekt á þjónustu á netinu og sýndaraðstoð þróuð fyrir stafræna þátttöku auk handbókar.

 

Byltingar og byggðaþróun: hlutverk þekkingarsetra í byggðaþróun fjórðu iðnbyltingarinnar.

Verkefnið er styrkt af Byggðarannsóknasjóði og er samstarfsverkefni ÞÞ og NÞ. Tilgangur verkefnisins er að greina áhrif fjórðu iðnbyltingarinnar í byggðum landsins og mögulegar leiðir til að nýta innviði þekkingarsetra. Meginmarkmiðin eru að greina og mæta hindrunum og tækifærum með atvinnuháttarbreytingum í kjölfar fjórðu iðnbyltingarinnar, þróa og útfæra skapandi svæðisbundna samvinnu þekkingaraðila , stoðkerfis atvinnulífs og sveitarfélaga og auk þess útfæra leiðir til að virkja svæðisbundin þekkingarsetur/klasa til beinnar þátttöku í nýsköpunarstarfi og frumkvöðlastuðningi.

 

Starfsfólk Nýheima þekkingarseturs þakkar kærlega fyrir höfðinglegar móttökur og hlakkar til að eiga áfram farsælt samstarf með Þekkingarneti Þingeyinga.

\"Þekkingarnet