Vissir þú að Byggðastofnun, landshlutasamtök sveitarfélaga og atvinnuþróunarfélög hafa staðið sameiginlega að íbúakönnun landshlutanna á þriggja ára fresti síðustu 20 árin til þess að afla gagna um stöðu byggðanna á landinu, í þeirri viðleitni að bæta lífs- og búsetuskilyrði hérlendis?

Íbúakönnunnin er opin öllum íbúum Íslands sem náð hafa 18 ára aldri en hún er aðgengileg á íslensku, ensku og pólsku.

Könnunina má nálgast hér
Survey in English (Press)
Ankieta w języku polskim (patrz tutaj)

Lögð er áhersla á að spyrja þátttakendur um mat þeirra á búsetuskilyrðum, almenna velferð, stöðu á vinnumarkaði og hver framtíðar búsetuáform þeirra séu.

Niðurstöður þessara kannana veita dýrmæta innsýn í stöðu íbúa á landsbyggðinni, nýtast fræðimönnum við innlenda háskóla, hjálpa sveitarfélögum og sveitarstjórnarfólki að móta áherslur í starfi sínu og geta einnig nýst í hverskonar stefnumótunarvinnu innan sveitarfélaga, landshlutasamtaka og Byggðastofnunar svo eitthvað sé nefnt. Gögn þessarar könnunar hafa nú þegar gefið þeim sem vinna að byggðaþróun á sveitarstjórnarstiginu mikilvægar upplýsingar um raunverulega stöðu í hinum ýmsu byggðum um land allt. Niðurstöður fyrri kannanna eru öllum aðgengilegar á vefsíðu Byggðastofnunar.

Hingað til hafa svör frá Skaftafellssýslum verið birt saman en á næstu vikum mun verkefnastjóri Nýheima, sem Byggðaþróunarfulltrúi Sveitarfélagsins Hornafjarðar, rýna í gögn fyrri kannanna og greina svör Hornfirðinga áður en niðurstöður núverandi könnunar verða birt. Svör þátttakenda eru ekki rekjanleg.

Mikilvægt er, fyrir okkar svæði, að fá góða þátttöku til að ná marktækum svörum fyrir okkar sveitarfélag.

Allir íbúar eru hvattir til að taka þátt í könnuninni.

Hér má sjá samanteknar niðurstöður spurningarinnar “Hvert er þitt álit á stöðu og mikilvægi eftirfarandi þátta/málaflokka í þínu sveitarfélagi?” með svörum frá íbúum Skaftafellssýslna.
“Staða: nálægð við fjölbreytta náttúru” skoraði hæðst á landsvísu í Skaftafellssýslum eða 4,84 af 5 mögulegum og “Mikilvægi: nálægð við fjölbreytta náttúru” skoraði 4,58. Einungis öryggi og friðsæld eru talin mikilvægari í Skaftafellssýslu en staða þeirra skorar örlítið lægra þó góð sé.