Eins og undanfarin ár einkennist aðdragandi jólanna hjá okkur í Nýheimum á fjarprófum háskólanema.
61 próf er þegar skráð hjá okkur fram að jólum, og enn bætist í hópinn.
Þetta er talsverð aukning frá því í fyrra en þá voru 44 jólapróf tekin hjá okkur.

Þeir nemendur sem vilja taka sín háskólapróf á Höfn eru hvattir til að hafa samband við sína skóla sem allra fyrst. Þessi þjónusta okkar er öllum aðgengileg, hvort sem um stað- eða fjarnema er að ræða enda kjósa margir nemendur að koma fyrr heim í jólafrí og taka sín lokapróf í rólegu umhverfi í Nýheimum. Allar sömu reglur gilda um lokapróf hér og í skólunum og fáum við leiðbeiningar frá skólunum um hvert próf.

Próftökugjald er hóflegt og hefur ekki hækkað síðan við tókum við þessari þjónustu af Háskólafélagi Suðurlands haustið 2017 en hvert próf kostar 4.000 kr. Nemendur greiða þó að hámarki 16.000 kr. próftökugjald á hverri önn, þá eru miðannapróf og möguleg upptökupróf þar með talin.
Einnig minnum við á lesrými háskólanema á Austurgangi Nýheima, þar eru lesbásar fyrir 8 einstaklinga í einu og öllum háskólanemum er frjálst að nýta sér þessa aðstöðu, sér að kostnaðarlausu, á opnunartíma hússins. Umsjón með þjónustu við háskólanema hefur Kristín Vala, verkefnastjóri Nýheima þekkingarseturs (kristinvala@nyheimar.is)

Hér má sjá próftöflu Nýheima eins og hún er í dag. Haukafell er nýtt nafn á endastofu Austurgags, þar sem prófin hafa verið tekin hingað til, en þegar fleiri en sex nemendur eru í prófi á sama tíma fáum við lánaða skólastofu hjá FAS, á efri hæð Nýheima. Hvaða skólastofa kemur í ljós þegar nær dregur og fer eftir starfi framhaldsskólans þann dag.