Náttúrustofa Suðausturlands

Náttúrustofa Suðausturlands er rannsóknastofnun á sviði náttúrufræða og starfar samkvæmt lögum nr. 60/1992. Hún er ein af átta náttúrustofum sem starfræktar eru á Íslandi og var sett á laggirnar árið 2013. Stofan er rekin af Sveitarfélaginu Hornafirði og Skaftárhreppi með stuðningi ríkisins, en einnig afla starfsmenn ýmissa styrkja fyrir starf sitt.

Á Náttúrustofunni er unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði rannsókna, ráðgjafar og fræðslu. Sem dæmi má nefna tengjast verkefni síðustu ára jöklum, jarðfræði, jökulvötnum, loftslagsbreytingum, kortagerð, fiðrildum, beitarlandi, gæsum og stjörnum, eða verkefnum sem tengjast þekkingu og færni starfsmanna stofunnar. Auk þessa hafa starfsmenn stofunnar séð um kynningar á verkefnum sínum, m.a. fyrir nefndir sveitarfélagsins, skólahópa, á ársfundum og ráðstefnum.

Hugmyndin að baki stofnun náttúrustofa í hverjum landshluta var að grunni til byggðatengd. Með tilkomu þeirra átti að skapa tækifæri fyrir háskólamenntaða náttúrufræðinga til að starfa nærri viðfangsefnum sínum og styrkja um leið byggð og fjölbreytileika mannlífs. Náttúrustofa Suðausturlands er gott dæmi um vel heppnaða byggðaaðgerð.

470 8060

Nýheimar, Litlubrú 2
780 Höfn