Hugrún Harpa Reynisdóttir kynnir verkefni sitt til meistaraprófs í umhverfis- og auðlindafræði frá Háskóla Íslands í Nýheimum fimmtudaginn 28. apríl klukkan 20:00.

Eigindleg rannsókn Hugrúnar var gerð meðal íbúa í Öræfum. Markmið rannsóknarinnar var annars vegar að öðlast skilning á upplifun einstaklinga á náttúrutengslum sínum, mótun þeirra og mögulegum áhrifum náttúrutengsla á viðhorf og gildi samfélagsins. Hins vegar að kanna upplifun og viðhorf fólks til umhverfisstjórnunar. Verkefnið tengir umræðu um náttúrutengsl og umhverfisstjórnun með umfjöllun sinni um mögulegt hagnýtt gildi skilnings á náttúrutengslum samfélags fyrir árangursríkari umhverfisstjórnun þar sem bent er á nauðsyn þess að þýða náttúruskilning heimafólks inn í stjórntæki og skipulag hins opinbera.