Nýheimar þekkingarsetur er nú að hefja samstarf í tveimur alþjóðlegum verkefnum, styrkt af Erasmus+ og bera þau heitin KNOW HUBs – þekkingarsetur, uppbyggjandi afl í dreifðum byggðum og SUSTAIN IT – Sjálfbærni í ferðaþjónustu – nýsköpun í þjálfun starfs. 

KNOW HUBs – Þekkingarsetur, uppbyggjandi afl í dreifðum byggðum er samstarfsverkefni milli Nýheima þekkingarseturs og stofnana víða í Evrópu. Svíar fara með verkefnastjórn en aðrir samstarfsaðilar að verkefninu eru frá Rúmeníu, Spáni, Írlandi, Danmörku og Grikklandi.   

KNOW HUBs verkefnið er til tveggja ára og miðar að því að brúa bilið milli þekkingar og hæfni, ásamt því að svara kröfum samfélagsins og einstaklinga um stuðning og ráðgjöf. Er ætlunin að skapa aðstæður þar sem ólíkir hópar geta komið saman og lært hver af öðrum og orðið þannig virkari einstaklingar í samfélaginu sem þau búa í. Verkefnastjórar þekkingarsetursins vinna nú að því að undirbúa komu hópsins til Íslands en fyrsti fundur verkefnisins fer fram hér á Hornafirði í lok október. 

SUSTAIN IT – Sjálfbærni í ferðaþjónustu – nýsköpun í þjálfun starfsfólks er verkefni sem stýrt er af Þekkingarneti Þingeyinga. Aðrir samstarfsaðilar verkefnisins eru frá Ítalíu, Grikklandi, Belgíu, Írlandi og Spáni en verkefnið er einnig til tveggja ára. 

SUSTAIN-IT verkefnið miðar að því að skapa markvissar aðferðir til þjálfunar starfsfólks og rekstraraðila í ferðaþjónustu þar sem sjálfbærni er höfð að leiðarljósi. Þjálfunin fer fram sem bein kennsla eða yfirfærsla á þekkingu, en einnig á starfrænu formi með þeim veflæga gangagrunni sem verkefnið skapar. Markhópurinn er núverandi og mögulegir aðilar í ferðaþjónustu, með það að markmiði að bæta samkeppnishæfni þeirra og þekkingu. Samstarfsaðilar í verkefninu leggja metnað sinn í að nýta fjölbreytta þekkingu og reynslu sem best inní verkefnið. Fyrsti fundur í verkefninu verður í Brussel í desember.

Nýheimar Þekkingarsetur leggur áherslu á að unnið verði með ólíkum aðilum í þessum verkefnum, ásamt því að afurðir verkefnanna verði aðgengilegar fyrir alla áhugasama. Ljóst er að spennandi tímar eru framundan hjá verkefnastjórum Nýheima þekkingaseturs enda eru verkefnin mörg og áhugaverð.