Nýheimar þekkingarsetur er samstarfshattur ólíkra stofnana sem starfa á sviði menntunar, menningar, nýsköpunar og rannsókna á Suðausturlandi. Aðilar að setrinu eru: Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu, Fræðsluskrifstofa Hornafjarðar, Háskólafélag Suðurlands, Matís, Menningarmiðstöð Hornafjarðar, Náttúrustofa Suðausturlands, Nýsköpunarmiðstöð, Ríki Vatnajökuls, Samband sunnlenskra sveitarfélaga, Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands, Vatnajökulsþjóðgarður og Vöruhúsið.

Nýheimar þekkingarsetur sameinar þessar ólíku stofnanir undir einn hatt í þeim tilgangi að efla samvinnu og skapa öflugt þekkingarsamfélag á landsbyggðinni, stuðla að jákvæðri byggðaþróun á Suðausturlandi og bæta lífsgæði á svæðinu.

 

Eitt af megin viðfangsefnum Nýheima þekkingarseturs er að leiða samstarf þessara stofnana og stýra samstarfsverkefnum þeirra. Starfsemi setursins felur einnig í sér mótun og fjármögnun kjarnaverkefna sem unnin eru að frumkvæði og forsjá setursins. Leggur setrið áherslu á að móta kjarnverkefni sem þykja styðja við uppbyggingu samfélagsins og auka möguleika og lífsgæði svæðisins.

Nýheimar þekkingarsetur hefur gert samstarfssamning við SASS um ráðgjöf á sviði atvinnuþróunar, nýsköpunar og menningar. Guðrún Ásdís verkefnastjóri Nýheima hefur frá upphafi veitt ráðgjöf til einstaklinga og fyrirtækja á svæðinu.

Þótt starfsemi Þekkingarsetursins snúi fyrst og fremst að nærsamfélagi þess þá hefur það í auknum mæli leitað eftir samstarfi við hliðstæð þekkingarsamfélög annars staðar á landsbyggðinni og einnig erlendis. Þátttaka í margvíslegum samstarfsverkefnum er því umfangsmikill hluti starfsseminnar.

Frá stofnun hefur starfsemi Nýheima þekkingarseturs vaxið að umfangi og starfsmönnum setursins fjölgað, auk forstöðumanns starfa nú hjá setrinu fjórir verkefnastjórar. Tekjur Nýheima samanstanda af opinberu framlagi ríkisins, tekjum af samstarfssamningum og sjálfsaflafé.

Hjá Nýheimum þekkingarsetri starfa Hugrún Harpa Reynisdóttir forstöðumaður Nýheima Þekkingasetur og Guðrún Ásdís Sturlaugsdóttir, Kristín Vala Þrastardóttir  og Sigríður Helga Axelsdóttir verkefnastjórar.

www.nyheimar.is
470 8088
nyheimar@nyheimar.is
Litlubrú 2
780 Höfn