Nú í haust hafa þrír nýir starfsmenn bæst í hópinn hjá Nýheimum þekkingarsetri.

Guðný Gígja Benediktsdóttir mun leysa Guðrúnu Ásdísi af á komandi vetri á meðan Guðrún verður í námsleyfi. Guðný Gígja er ferðamálafræðingur og hefur starfað í ferðaþjónustu í höfuðborginni undanfarinn áratug. Þá starfaði hún einnig sem landvörður hjá Vatnajökulsþjóðgarði síðasta sumar með aðsetur í Gömlubúð.

Guðný Gígja mun sinna þjónustu og ráðgjöf til frumkvöðla og fyrirtækja í samstarfi við SASS, Samtök sunnlenskra sveitarfélaga. Tekur hún vel á móti öllum á skrifstofu sinni í Nýheimum.

Sigrún Inga Sigurgeirsdóttir hefur verið ráðin verkefnastjóri nýs verkefnis setursins sem felur í sér framkvæmd þolmarkarannsóknar á Breiðamerkursandi. Þolmarkarannsóknin er samstarfsverkefni Nýheima þekkingarseturs og Náttúrustofu Suðausturlands. Verkefnið er unnið fyrir Vatnajökulsþjóðgarð og er hluti af Vörðu sem er samstarfsverkefni atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og byggir á heildstæðri nálgun áfangastaðastjórnunar. Ráðgert er að verkefninu ljúki í lok næsta árs. Sigrún Inga mun einnig eftir atvikum koma að fjölþjóðlegum samstarfsverkefnum setursins.

Sigrún Inga er búsett í Gautaborg og mun sinna störfum sínum þaðan. Sigrún Inga er með MS í landfræði ásamt viðbótardiplóma í safnafræði.

Þá hefur Rannveig Rögn Leifsdóttir, sem er líffræðingur að mennt, verið ráðin í tímabundið hlutastarf og mun hún koma að fjölþjóðlegum samstarfsverkefnum setursins. Hún mun einnig starfa í hlutastarfi hjá Náttúrustofu Suðausturlands og hafa aðsetur í Nýheimum. Rannveig er nýflutt til Hornafjarðar ásamt unnusta sínum og syni.

Við bjóðum þessar öflugu konur hjartanlega velkomnar til starfa.\"\"