Náttúrustofa Suðausturlands er nágranni okkar í Nýheimum og forstöðumaður stofunnar situr í stjórn Nýheima þekkingarseturs. Náttúrustofan og þekkingarsetrið á í farsælu samstarfi og vinnur nú meðal annars í sameiningu að þolmarkarannsókn á Breiðamerkursandi fyrir Vatnajökulsþjóðgarð. Núverandi forstöðumaður náttúrustofunnar, Kristín Hermannsdóttir, hefur sagt upp störfum og hefur dr. Lilja Jóhannesdóttir starfsmaður stofunnar verið ráðin í starfið. Á sama tíma og við óskum Lilju velfarnaðar í nýju starfi og hlökkum til áframhaldandi samstarfs stofnananna óskum við Kristínu, fráfarandi forstöðumanni, farsældar á nýjum vettvang.

Meðfylgjandi er frétt af vef náttúrustofunnar þar sem lesa má um störf Lilju.

Stjórn Náttúrustofu Suðausturlands hefur ráðið Lilju Jóhannesdóttir í starf forstöðumanns Náttúrustofu Suðausturlands frá og með 1. apríl n.k. Lilja er með doktorspróf í líffræði frá Háskóla Íslands og með M.Sc. og B.Sc. gráðu í náttúru- og umhverfisfræði frá Landbúnaðarháskóla Íslands. Hún hefur starfað hjá stofunni s.l. 4 ár, en var áður hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Suðurlandi. Störf hennar hjá Náttúrustofu Suðausturlands hafa mestmegnis tengst vistfræði- og fuglarannsóknum en hún hefur einnig komið að öðrum fjölbreyttum störfum og lagt metnað sinn í að kynna rannsóknir og viðfangsefni stofunnar á opinberum vettvangi. Lilja þekkir vel til starfsemi Náttúrustofunnar og hefur víðtæka reynslu af náttúrufræðirannsóknum og styrkumsóknum. Framtíðarsýn Lilju rímar vel við þá framtíðarsýn sem stjórn hefur varðandi rekstur Náttúrustofunnar og treystir stjórn henni fyrir því að leiða þá vinnu.

\"\"\"\"

Fréttin er tekin af síðu Nattsa.is