Nýheimar þekkingarsetur vinnur að fjölbreyttum verkefnum en hefur meðal annars beint sjónum sínum að málefnum ungs fólks á Hornafirði. Niðurstöður fyrri verkefna hafa varpað ljósi á þörf ungmenna fyrir stuðning og valdeflingu og leggur setrið áherslu á að mæta þeim þörfum. 

Nú í byrjun desember stóð setrið fyrir valdeflandi námskeiði fyrir ungt fólk sem bar heitið Öflug ung forysta. Námskeiðið tengist þátttöku setursins í verkefninu KNOW HUBsþekkingarsetur, uppbyggjandi afl í dreifðum byggðum og voru þátttakendur í námskeiðinu ungmenni sem starfa í nemendaráði FAS og Ungmennaráði Hornafjarðar. Fræðslan byggði á handbók sem mótuð var af þátttakendum í KNOW HUBs en á námskeiðinu var meðal annars fjallað um stöðu ungs fólks í nærsamfélaginu, tækifæri þeirra til áhrifa, árangursrík samskipti, markmiðasetningu, tjáningu, skipulag og miðlun. Málefnaleg og lífleg umræða námskeiðsins sýndi vel hversu flott og öflug ungmenni við eigum og viljum við þakka þeim fyrir að taka þátt í verkefninu með okkur.     

Í tengslum við sama verkefni mun setrið standa fyrir öðru valdeflandi námskeiði fyrir ungt fólk, óháð námi eða félagsstörfum. Verður það námskeið auglýst betur á nýju ári og vonumst við til að ungmenni Hornafjarðar nýti sér það tækifæri og taki þátt.   

Hugrún Harpa og Kristín Vala