Rannsóknarþing Nýheima fór fram í liðinni viku. Þingið var hið fyrsta í röð viðburða sem snerta grunnstoðir þekkingarsetursins: Menntun, menningu, rannsóknir og nýsköpun. Áætlað er næsta þing fari fram í einmánuði eða með hækkandi sól.

Forstöðumenn og fulltrúar aðila að þekkingarsetrinu fluttu fjölda erinda um rannsóknarstarfsemi sinna stofnanna og gerðu grein fyrir völdum verkefnum. Þá var Ólafía Jakobsdóttur, forstöðumaður Kirkjubæjarstofu, sérstakur gestur á þinginu og sagði frá rannsóknarstarfi á Klaustri og áhugaverðu verkefni þar sem tengist Brunasandi.

Af þinginu að dæma er ljóst að það er gróska í rannsóknarstarfsemi í Nýheimum og rannsóknarsviðið er vítt.

Eftirfarndi eru stutt samantekt á þeim erindum sem flutt voru á þinginu:

Allt milli himins og jarðar – verkefni rannsóknarsetursins á Hornafirði – Þorvarður Árnason, náttúrufræðingur

Rannsóknasetrið á Hornafirði hefur fengist við fjölbreytt verkefni í gegnum árin. Gerð verður stuttlega grein fyrir helstu rannsóknarsviðum setursins og í framhaldinu síðan rætt um viðamestu rannsóknir þess nú í ár, sem lúta að greiningu og flokkun landslags og víðerna á Íslandi.

Ég skapa – þess vegna er ég. Um skrif Þórbergs Þórðarsonar  – Soffía Auður Birgisdóttir, bókmenntafræðingur

Soffía Auður hefur nýlokið áralangri rannsókn á skrifum Þórbergs Þórðarsonar sem gátu af sér doktorsritgerð og bókina Ég skapa – þess vegna er ég. Hún mun segja frá bókinni sem er nýkomin út.

Yfirlit yfir valin verkefni Náttúrustofu – Kristín Hermannsdóttir, forstöðumaður

Náttúrustofa Suðausturlands er rannsóknastofnun á sviði náttúrufræða sem staðsett er á Hornafirði. Að stofunni standa Sveitarfélagið Hornafjörður og Skaftárhreppur og er starfsvæði hennar allt Suðausurlands.  Hjá stofunni starfa tveir einstaklingar í fullu starfi, en síðast liðið sumar voru einnig tveir sumarstarfsmenn. Helstu störf Náttúrustofu Suðausturlands um þessar mundir eru vöktun á skriðjöklum, rannsókn á ágangi gæsa á ræktarlönd, talning á helsingjahreiðrum, rannsókn á lífríki í og við ána Míganda, ástandsskoðun beitarlands, gerð náttúrustígs, stjörnuathuganir, áningastaðir og örugg vegútskot, fiðrildavöktun og ýmis kortagerð. Í erindinu verður tæpt á nokkrum völdum rannsóknarverkefnum.

Stjarnhnitamæling og gamlar myndir af jöklum – Snævarr Guðmundsson, sviðsstjóri

Í þessu erindi er sagt frá tveim aðskildum verkefnum sem Náttúrustofa Suðausturlands sinnir. Fyrra verkefnið fjallar um stjarnhnitamælingar fastastjörnu, sem hafa verið gerðar hér á Höfn en seinna greinir frá framvindu hops Breiðamerkurjökuls. Gamlar myndir af jöklum geta verið afar þýðingarmiklar í að varpa ljósi á framvindu breytinga. Slíkar myndir af Breiðamerkurjökli hafa gert kleift að rekja stöðu hans á tímabil á 20. öld sem annars takmarkaðar upplýsingar finnast um.

Rannsóknir og uppbygging innan Hornafjarðarsafna – forleifarannsóknir og skráning menningaminja – Vala Björg Garðarsdóttir, forstöðumaður

Rannsóknaráætlun Hornafjarðarsafna miðast meðal annars við að rannsaka og skrá menningarminjar og menningararf Hornafjarðar með markvissum hætti. Innan Hornafjarðarsafna er unnið samhliða að rannsóknum og skráningu menningarminja á vettvangi sem og innan þeirra safnaeininga sem tilheyra safninu. Rannsóknaráætlunin er til ársins 2020 og gengur undir vinnuheitinu „samspil manns og náttúru frá öndverðu til okkar daga í Hornafirði“.

Rannsóknarstarf í FAS – Eyjólfur Guðmundsson, skólameistari

Fjallað um það hvernig rannsóknir eða vöktun við raunverulegar aðstæður eru nýttar til að kenna nemendum vísindalega vinnubrögð, bæta við vísindalega þekkingu og þekkingu nærsamfélagsins á náttúru og samfélagi. Nokkrum dæmum um þetta lýst.

LUV: Borgaravitund og valdefling ungmenna á landsbyggðinni – Margrét Gauja Magnúsdóttir, uppeldis og menntunarfræðingur

Atgervisflótti ungmenna er víða vandamál á landsbyggðinni þar sem ungt fólk í leit að tækifærum þarf að velja á milli þess að dvelja í heimabyggð eða flytjast búferlum. Menntunarkostir og atvinnutækifæri ráða miklu um ákvörðunina en ekki síður samfélagsgerð í heimabyggð og virkni ungmenna. Rannsóknir sýna að samfélagsþátttaka ungmenna og tengsl þeirra við samfélagið er víða takmörkuð og það virðist hvort heldur eigi við um félagslíf eða málefni sveitarfélagsins. Markmið rannsóknarinnar er að kanna hugmyndir ungmenna til lýðræðis og valdeflingar og standa að valdeflingu sem er mótuð að þeirra hugmyndum.

Hvernig nýtast Nýheimar námsmönnum? – Hugrún Harpa Reynisdóttir, umhverfis – og auðlindafræðingur

Hugrún Harpa hefur stundað meistaranám sitt í umhverfis- og auðlindafræði frá Hornafirði. Mun hún segja frá námi sínu og ræða um mikilvægi aðstöðu og sérfræðiþekkingar innan Nýheima frá sjónarhóli nemandans.