Þann 22. apríl sl. voru formlega stofnuð Samtök þekkingarsetra (SÞS) sem Nýheimar þekkingarsetur er aðili að.
Um er að ræða netverk þekkingarsetra á landsbyggðinni sem starfa samkvæmt samningi við mennta- og menningarmálaráðuneytið.
Meðal samningsbundinna verkefna setranna eru rannsóknir og þróun til eflingar byggðar, þjónusta við háskólanema, hagnýting og miðlun þekkingar sem og efling nýsköpunar, atvinnu og samfélagsþróunar. Hin nýstofnuðu samtök hafa þann tilgang að efla samvinnu setranna á landsbyggðinni, gæta sameiginlegra hagsmuna þeirra og efla skilning á mikilvægi starfseminnar.
Hugrún Harpa, forstöðumaður Nýheima þekkingarseturs, er fyrsti formaður samtakanna og verður fyrsti ársfundur SÞS haldinn á Höfn á haustmánuðum 2020.