Stafræn Samfélög: Upphaf verkefnis

Eins og fram hefur komið er mikið um að vera hjá verkefnastjórum Nýheima þekkingarseturs þessa dagana en um þessar mundir hefst vinna við fjögur ný Erasmus+ verkefni sem styrkt eru af samstarfsáætlun Evrópusambandsins.

Eitt þessara verkefna er Digital skills and competences of local communities in rural areas sem á íslensku gæti útlagst sem Stafræn hæfni og færni samfélaga á landsbyggðinni. Í daglegu tali gengur verkefnið undir heitinu Stafræn samfélög. Verkefnið er unnið í samstarfi sex aðila sem koma frá fimm Evrópulöndum, þ.e. Búlgaríu, Hollandi, Svíþjóð, Spáni og Íslandi en þátttakendur frá Íslandi eru tveir, Nýheimar þekkingarsetur og Þekkingarnet Þingeyinga. Nýheimar þekkingarsetur sóttu um verkefnið fyrir hönd hópsins og er verkefnastjóri þess.

Verkefnið snýst um að þróa stafræna færni íbúa í sveitarfélögum á landsbyggðinni og í dreifbýli. Áhersla verður lögð á eldriborgara í þessu samhengi ásamt sjálfboðaliðum, leiðbeinendum og umönnunaraðilum eldriborgara. Fyrirhugað er að greina hvað þarf til þess að aldraðir einstaklingar geti nýtt mismunandi opinbera þjónustu á veraldarvefnum og lagað sig þannig betur að hinum stafræna heimi. Þannig megi efla sjálfstraust í notkun internetsins sem getur bætt lífsgæði þar sem þjónusta er í síauknum mæli á vefnum. Að greiningunni lokinni verður þróað sýndarstoðtæki fyrir stafræna þátttöku aldraðra, t.d. myndbönd, út frá raunverulegum dæmum úr lífi aldraðra. Afurðirnar verða í framhaldinu kynntar fyrir umönnunaraðilum eldriborgara og þeim kennt að nýta efnið til að veita skjólstæðingum sínum kennslu, stuðning og hvata.

Fyrirhugað var að upphafsfundur þátttakenda í verkefninu færi fram í Rotterdam í Hollandi en vegna Covid-19 fór fundurinn fram á netinu þann 11. nóvember s.l. og tókst ákaflega vel. Þátttakendur í verkefninu eru reynslumiklir og á fjölbrettum sviðum en mikil tilhlökkun er innan hópsins til að takast á við þetta spennandi verkefni sem Stafræn samfélög er.

\"\"

\"\"