Árið 2016 stóð setrið fyrir fyrsta Starfastefnumótinu í Sveitarfélaginu Hornafirði, nú er komið að því að endurnýja leikinn og er verkefnastjóri setursins að undirbúa daginn í samstarfi við Grunnskóla Hornafjarðar, Framhaldsskólann í Austur-Skaftafelli, Sveitarfélagið Hornafjörð og fyrirtæki á svæðinu undir merkjum Hornafjarðar, náttúrulega! heildarstefnu sveitarfélagsins sem verið er að innleiða.  

Starfastefnumótið fellur vel að framtíðarsýn stefnunnar og gildum, en þau eru virðing, framsækni og samvinna en án þessara þátta verður lítið úr fyrirhuguðum viðburði.  

Framtíðarsýn sveitarfélagsins: “Sveitarfélagið er eftirsóknarverður og fjölskylduvænn búsetukostur sem fólk vill sækja heim. Mannlíf og lífsgæði blómstra í sátt og samlyndi við umhverfi og náttúru. Fólk hefur hér jöfn tækifæri í velferðarsamfélagi og þjónusta er framúrskarandi. Menning er lifandi og öflug nýsköpun til staðar.”  

Hugmyndin að Starfastefnumóti er stefnumót fyrirtækja/stofnanna við starfsmenn framtíðarinnar og alla íbúa. Með viðburðinum viljum við leggja áherslu á fjölbreytt tækifær til náms og starfa á svæðinu, skapa umræðu um þróun starfaumhverfisins og vekja áhuga ungmenna á framtíðinni í sveitarfélaginu og sýna fram á fjölbreytt tækifæri til að skapa eigin framtíð. 

Á starfastefnumótinu munu einstakar starfsgreinar og fyrirtæki hafa aðstöðu til kynningar. Þátttaka í stefnumótinu felur í sér að fulltrúar fyrirtækja og starfsgreina taka þar á móti gestum og kynna þau störf sem unnin eru innan einingarinnar sem og kosti og möguleika við að starfa í viðkomandi starfsgrein eða fyrirtæki á Hornafirði.  

Taktu daginn frá og komdu á stefnumót!  

Hefur þú / þitt fyrirtæki áhuga á að taka þátt í þessum skemmtilega viðburði, skráning er hjá Kristínu Völu, verkefnastjóra setursins (kristinvala@nyheimar.is)