Í haust verður haldið Starfastefnumót í Hornafirði. Fyrirmynd stefnumótsins er Starfamessa sem haldin var á Suðurlandi síðastliðið vor. Þangað sótti fjöldi ungmenna, meðal annars frá Hornafirði. Messan þótti takast vel og í framhaldinu var ákveðið að standa fyrir samskonar viðburði hér í Hornafirði.

Ætlunin er að standa fyrir persónulegri og lifandi kynningu fyrir íbúa á starfsgreinum og starfsemi fyrirtækja í sveitarfélaginu. Lögð verður áhersla á að gefa ungmennum tækifæri til að fræðast um starfaheiminn í samfélaginu, þróun hans og hvaða menntunarkröfur fyrirtækin kalla eftir til framtíðar. Jafnframt skapa vettvang fyrir samtal eða stefnumót fyrirtækja sem gæti hugsanlega leitt til samstarfs.

Stefnumótið er fyrir alla íbúa sveitarfélagsins, styrkt af Sveitarfélaginu Hornafirði og Vinnumarkaðsráði Austurlands og unnið í samstarfi við Þekkingarsetrið Nýheima. Þá er leitað eftir samstarfi fyrirtækja á svæðinu um þátttöku í stefnumótinu.

Hugrún Harpa Reynisdóttir verkefnastjóri hjá Nýheimum hefur tekið að sér verkefnið og er áhugasömum bent á að fyrirspurnum er svarað á netfanginu hugrunharpa@nyheimar.is. Einnig er bent á facebook – síðu Starfastefnumótsins: Starfastefnumót á Höfn í Hornafirði.

Vonir standa til að viðburðurinn verði upplýsandi og árangursríkur fyrir alla sem að honum koma. Fyrst og fremst er vonast eftir góðri þátttöku og skemmtilegri uppákomu í samfélaginu.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *