Nú er í annað sinn á Hornafirði haldið Starfastefnumót, viðburðurinn fer fram í Nýheimum til kl.17 í dag og eru íbúar hvattir til að fjölmenna. Hugmyndin að baki Starfastefnumótinu er að gera fjölbreytileika atvinnulífs svæðisins sýnilegan, bjóða fyrirtækjum á stefnumót við mögulega framtíðar starfsmenn og samfélagið allt. Einnig að leggja áherslu á fjölbreytt tækifæri til náms og starfa á svæðinu, skapa umræðu um þróun starfaumhverfisins og vekja áhuga ungmenna á framtíðinni í sveitarfélaginu og að skapa eigin framtíð. 

Starfastefnumótið er unnið í samstarfi við Grunnskóla Hornafjarðar, Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu, Sveitarfélagið Hornafjörð og fyrirtæki á svæðinu. Allir nemendur grunnskólans koma í skipulagða heimsókn í Nýheima í dag og dagurinn er einnig hluti af vísindadögum FAS og hafa hópar nemenda skólans rannsakað starfsframboð, menntunarkröfur og annað í sambandi við atvinnumarkaðinn í sveitarfélaginu. Einn hópur nemenda í FAS, 11 talsins eru þátttakendur í skipulagshóp ásamt verkefnastjórum Hornafjörður, náttúrulega!. Sá hópur sá meðal annars um skipulag og uppsetningu á básum, auglýsingum, samfélagsmiðlum, veitingum, o.fl.  

Fulltrúar um 40 fyrirtækja og stofnanna af svæðinu standa vaktina í dag og bjóða gesti velkomna að fræðast um starfsemi þeirra. Komið endilega að skoða, fikta, spyrja og spjalla í Nýheimum í dag! 

Dagskrá Starfastefnumótsins líkur með erindi frá ungum frumkvöðli, Nökkva Dan Elliðasyni, kl. 16:30 í fyrirlestrasal Nýheima en hann mun fjalla um að fara sínar eigin leiðir í lífinu og skapa sína framtíð.  

Allri velkomnir! 

Heitt á könnunni og grill í hádeginu!