Árið 2017 urðu Nýheimar 15 ára, þá er átt við bygginguna við Litlubrú 2. Starfsemi þar hófst haustið 2002 þegar Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu (FAS) flutti úr Nesjaskóla í Nýheima. Frá þeim tíma hafa hinar ýmsu stofnanir haft aðstöðu á neðri hæð hússins, á Háskólagangi og Frumkvöðlagangi. Óhætt er að segja að nú sé kominn nokkuð þéttur og stöðugur kjarni stofnana sem hafa starfsstöð í húsinu.

Þekkingarsetrið

Nýjasta stofnunin er Nýheimar þekkingarsetur sem stofnað var árið 2013. Það hefur á sínum upphafsárum vaxið talsvert og starfa nú hjá setrinu þrír fastráðnir starfsmenn. Auk forstöðumanns, Hugrúnar Hörpu Reynisdóttur, starfa Guðrún Ásdís Sturlaugsdóttir og Kristín Vala Þrastardóttir sem verkefnastjórar hjá setrinu. Á næstunni mun fjölga í starfsmannahópi setursins en stjórn þess hefur nýverið ákveðið að auglýsa eftir starfsmanni í fjórða stöðugildið.

Þekkingarsetrið er samstarfshattur ólíkra stofnana sem starfa á sviði menntunar, menningar, nýsköpunar og rannsókna á Suðausturlandi. Í húsnæði Nýheima eru ólíkar stofnanir sem flestar eiga aðild að setrinu og þar með fulltrúa í stjórn þess. Þekkingarsetrið er eins og aðrar stofnanir í húsinu sjálfstæð eining, en eitt af meginmarkmiðum þess er að efla samvinnu ólíkra stofnana. Eru samstarfsverkefni aðila innan og utan Nýheima því stór þáttur í starfsemi setursins. Tilgangurinn er að skapa öflugt þekkingarsamfélag á landsbyggðinni og er óhætt að segja að tekist hafi nokkuð vel til. Gjarnan er litið á Nýheima sem „skólabókardæmi“ um farsæla uppbyggingu þekkingarstarfs utan höfuðborgarsvæðisins.

Starfið

Framundan eru spennandi verkefni. Setrið hefur tekið við þjónustu við háskólanema, kemur að starfi með ungmennum í FAS, sinnir ráðgjöf á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar fyrir hönd SASS ásamt því að vinna að sjálfstæðum verkefnum sem og samstarfsverkefnum með innlendum og erlendum aðilum. Á heimasíðunni www.nyheimar.is  eru fundargerðir stjórnar aðgengilegar og einnig starfsáætlun ársins 2018 fyrir þá sem áhuga hafa á að kynna sér og fylgjast með starfsemi þekkingarsetursins.

Hvernig til hefur tekist við að skapa öflugt þekkingarsamfélag í Nýheimum er afar dýrmætt fyrir samfélag sem okkar. Fyrir utan þá mikilvægu starfsemi sem fram fer innan stofnana sem starfa í húsinu þá hafa með öflugra þekkingarsamfélagi skapast fleiri störf fyrir háskólamenntað fólk á Hornafirði. Oft er rætt um mikilvægi þess að fá unga fólkið okkar heim að loknu framhaldsnámi og að Hornafjörður verði í þeirra augum vænlegur búsetukostur. Fjölbreytt atvinnutækifæri eru þar lykilatriði. Það er með Nýheima þekkingarsetur eins og aðrar slíkar stofnanir að stöðugt þarf að sanna mikilvægi þeirra og höfum við í Nýheimum lagt ríka áherslu á að Nýheimar eru ekki síst mikilvægir í byggðalegu tilliti.

Viltu vita meira?

Líkt og setrið hefur að markmiði að auðga og efla samfélag okkar þá er afar mikilvægt að samfélagið styðji við starfsemi Nýheima. Það gerir samfélagið best með því að taka þátt og nýta sér það sem stofnanir Nýheima hafa uppá að bjóða. Hvet ég alla til að koma sem oftast í heimsókn í Nýheima, kynna sér starfsemina og setjast niður með þeim sem hér starfa og ræða lífið og tilveruna.

Hugrún Harpa Reynisdóttir
Forstöðumaður Nýheima þekkingarseturs

 

\"\"