Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Hornafirði
Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands er rannsóknastofnun sem heyrir undir háskólaráð. Rannsóknir eru meginverkefni stofnunarinnar og rannsóknasetra háskólans víðs vegar um landið. Viðfangsefnin eru fjölbreytt en á meðal þeirra eru náttúruvísindi, lífríki hafsins, umhverfi og landnýting, hvalir, fiskar og fuglar, ferðamál, bókmenntir, sagnfræði, þjóðfræði og fornleifafræði. Stofnunin er vettvangur samstarfsverkefna Háskólans við sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga á landsbyggðinni.
Markmið Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands er að stuðla að rannsóknum, menntun og leiðbeiningu framhaldsnema víða um land, ásamt því að vera vettvangur samstarfsverkefna háskólans við nærumhverfi og nærsamfélög rannsóknasetranna með samstarfi við sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga.
Með þeim hætti leggja rannsóknasetrin [sitt] af mörkum við að efla tengsl Háskóla Íslands við atvinnu- og þjóðlíf.
Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Hornafirði er hluti af Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands. Megináherslur þess eru á umhverfismál, bókmenntir, menningarmál og ferðamál. Setrið sér um rannsóknastöðina Auga Solanders sem staðsett er á Breiðamerkursandi og er þverfræðilegt verkefni í samvinnu fjölda vísindafólks. Fastir starfsmenn: Dr. Þorvarður Árnason og Dr. Soffía Auður Birgisdóttir.