Ert þú háskólanemi eða veist um háskólanema í leit að skemmtilegri áskorun í sumar?

Nýheimar þekkingarsetur hlaut á dögunum styrk, í samstarfi við Þekkingarnet Þingeyinga á Húsavík, til að vinna að sumarverkefni með háskólanema. Styrkurinn er frá Nýsköpunarsjóði námsmanna en markmið sjóðsins er að gefa háskólum, rannsóknastofnunum og fyrirtækjum tækifæri til að ráða námsmenn í háskólanámi til sumarvinnu að rannsókna- og þróunarverkefnum. Umsóknir voru metnar með hliðsjón af möguleikum til hagnýtingar í atvinnulífinu og nýnæmi fyrir þekkingu í viðkomandi fræðigrein. Verkefnin skulu leyst af hendi með sjálfstæðri og faglegri vinnu námsmanns undir leiðsögn ábyrgðarmanna. 

Verkefnið sem um ræðir er samstarfsverkefni milli þessara tveggja miklu áfangastaða ferðamanna og er nú óskað eftir tveimur háskólanemum til starfa í sumar. Verkefnið fjallar um ferðavenjur erlendra ferðamanna, tökustaði og tækifæri í markaðssetningu á grunni þeirra. Annað starfið er á Höfn en hitt á Húsavík eða í Mývatnssveit. Hluti starfsins fer fram á ferðamannastöðum sem eru tökustaðir kvikmynda og hluti á starfsstöðvum stofnananna. Þá er gert ráð fyrir að háskólanemarnir vinni saman að verkefninu.

Fjölbreytt háskólanám og reynsla getur nýst í þetta verkefni – ef þú hefur áhuga á kvikmyndum, ferðaþjónustu, markaðssetningu, félagsfræði eða samskiptum hvetjum við þig til að setja þig í samband.

Frekari upplýsingar veita Hugrún Harpa, forstöðumaður Nýheima þekkingarseturs á hugrunharpa@nyheimar.is og Helena Eydís verkefnastjóri á Húsavík á helena@hac.is