Þekkingarsetrið Nýheimar hefur á undanförnum mánuðum fengist við fjölda verkefna sem eru eins ólík og þau eru mörg. Sex þessara verkefna eru unnin með styrk frá Erasmus+, samstarfsáætlun ESB og fóru fjögur þeirra af stað seinni part árs 2020 en tvö verkefni fóru af stað árið 2018 og fer því að líða að lokum þeirra. Það má því sanni segja að nóg sé að gera hjá starfsmönnum þekkingarsetursins og dagskráin fjölbreytt og skemmtileg.

SUSTAIN IT verkefnið hófst í nóvember 2018 og er því senn á enda. Verkefnið er unnið í samstarfi 8 stofnanna frá 6 löndum í Evrópu og hefur samstarfið reynst ákaflega gott og árangursríkt.

Markmið SUSTAIN IT verkefnisins er að auka samkeppnishæfni fyrirtækja í ferðaþjónustu sem vinna í anda sjálfbærar þróunar með því að þróa nýja, hagnýta og framkvæmanlega starfsmenntun fyrir stjórnendur í ferðaþjónustu. Markhópur SUSTAIN IT eru stjórnendur í ferðaþjónustufyrirtækjum og framtíðar stjórnendur í greininni. Markmiðið var að auka færni þeirra og hæfni í áætlanagerð, innleiðingu og markaðssetningu raunhæfra lausna í sjálfbærri ferðaþjónustu. SUTAIN IT verkefnið hentar sérstaklega einyrkjum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum á hvaða sviði ferðaþjónustunnar sem er (s.s. fólksflutningum, leiðsögn, gistingu og veitingum).

Á síðastliðnum tveimur árum hafa samstarfsaðilar SUSTAIN IT sett saman 8 námskeið ásamt 14 raundæmum um Sjálfbæra ferðaþjónustu þar sem markmiðum verkefnisins er komið til skila. Heimasíða verkefnisins er www.sustainit.eu og þar má nálgast allar upplýsingar um verkefnið ásamt afurðum verkefnisins. Allt efni heimasíðunnar er aðgengilegt á fjórum mismunandi tungumálum.

Næstkomandi föstudag mun kynningarmálstofa SUSTAIN IT á Íslandi fara fram í gegnum zoom fjarskiptaforritið. Íslensku þátttakendur verkefnisins frá Nýheimum Þekkingarsetri og Þekkingarneti Þingeyinga munu þar sameina krafta sína og halda sameiginlegan fund til kynningar á verkefninu.

Dagskrá fundarins má sjá hér að neðan og eru allir sem málið varðar hvattir til þess að skrá sig á viðburðinn á vefslóðinni https://hac.is/namskeidslisti/. Málstofan hefst stundvíslega kl.11.00 n.k. föstudag og lýkur eigi síðar en kl.12.45

Kynning á SUSTAIN IT verkefninu

Rannveig Ólafsdóttir, prófessor í ferðamálafræðum við HÍ

Kynning frá ferðaþjónustuaðila Höfn í Hornafirði

Kynning frá ferðaþjónustuaðila í Mývatnssveit

Snjólaug Ólafsdóttir, sjálfbærni ráðgjafi hjá Andrými sjálfbærnisetri.

 

\"\"