Sustainable

Verkefnið Sustainable eða Sjálfbærni hófst í lok árs 2020 og vinnur setrið að verkefninu í samstarfi við stofnanir í Svíþjóð, Belgíu, Írlandi, Ítalíu, Þýskalandi, Spáni og Rúmeníu. Sustainable verkefnið er til tveggja ára og er styrkt af Erasmus+. Megin markmið verkefnisins er að skapa heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna vægi í nálgun og aðferðum í fræðslu fullorðinna. Afurðum þess er ætlað að stuðla að aukinni vitund og þekkingu meðal kennara og leiðbeinenda um sjálfbærni. Um er að ræða hagnýtt efni fyrir kennara og leiðbeinendur til að auka vægi sjálfbærni í fræðslu og miðlun hvers konar.  

Unnið hefur verið að öllum verkþáttum verkefnisins en þegar hefur verið lokið við gerð handbókar um sjálfbærni og heimsmarkmiðin þar sem teknar eru saman staðreyndir og upplýsingar til hagnýtingar fyrir kennara og leiðbeinendur. Einnig er verið að leggja lokahönd á gerð leiðarvísis sem ætlað er að styðja við leiðbeinendur og kennara til að innleiða sjónarmið sjálfbærni í námsefni, aðferðir og námsumhverfi. Nú á vormánuðum er verið að vinna að gerð námsefnis sem lýsir aðferðum og efnistökum sem styðja við sjálfbærni í formlegri, óformlegri og formlausri menntun.  

Allar afurðir verkefnisins verða þýddar á öll tungumál þátttökulandanna og gerðar aðgengilegar á heimasíðu verkefnisins og undir \”verkefnum\” á nyheimar.is. Vegna Covid-19 hafa fundir verkefnisins verið haldnir í fjarfundi hingað til en stefnt er á að halda fyrsta fund verkefnisins í persónu á Höfn í enda maí, auk samstarfsaðila fundar taka fleiri þátt í námskeiði þar sem unnið verður með afurðir verkefnisins.  Verkefnastjórar fyrir hönd setursins eru Hugrún Harpa og Kristín Vala.