Í liðnum mánuði sótti Kristín Vala, verkefnastjóri setursins, tenglsaráðstefnu í Drammen, Noregi í boði Rannís. Ráðstefnan var á vegum Erasmus+ og haldið af landsskrifstofu Erasmus í Noregi, systurstofnun Rannís. Yfirskrift ráðstefnunnar var “Collaborating for Success: Exploring Opportunities and Partnerships in a Nordic context” og markmið hennar þríþætt:

  • Auka þátttöku og áhrif viðeigandi stofnana meðal “KA220” samstarfsaðila.
  • Hvetja til þróunar verkefnahugmynda sem geta haft jákvæð áhrif
  • Þjóna sem vettvangur fyrir tengslanet, skiptast á hugmyndum og upplifunum

Efni ráðstefnunnar var að efla tengsl norðurlandanna og leggja grunninn að samstarfsverkefnum þeirra á milli auk fræðslu um umsóknarferli og styrkjaframboð Erasmus+. Nýheimar þekkingarsetur hefur átt í mörgum fjölþjóðlegum verkefnum sem styrkt hafa verið af Erasmus+ og eiga samstarfsaðila víða um álfuna en þar til nú í vetur einungis einn á norðurlöndunum. Frá stofnun setursins hefur verið litið til Söderhamn í Svíþjóð hvernig byggja eigi upp þekkingarseturs og hafa stofnanirnar átt í farsælu samstarfi undanfarin ár. Það var einmitt samstarfsaðili okkar í Svíþjóð sem sagði okkur frá þessari ráðstefni og áttum við fund í Noregi.

Þátttakendur, sem fengu boð á ráðstefnuna, voru rétt um 40, auk fulltrúa landsskrifstofanna. Sjö gestir komu frá Danmörku, 12 frá Finnlandi, 14 frá Noregi, sex frá Svíþjóð auk tveggja þátttakenda frá Íslandi. Bakgrunnur þátttakenda er fjölbreyttur og á ólíkum sviðum, margir hafa einhverja reynslu af Erasmus+, hvort sem það eru samstarfsverkefni eins og við þekkjum eða nemenda- og starfsmannaskipti eins og tíðkast víða í skólum.

Hluti hópsins í Drammen