Rannsókn á þolmörkum við Jökulsárlón og á Breiðamerkursandi er samstarfsverkefni Nýheima þekkingarseturs og Náttúrustofu Suðausturlands. Verkefnið er unnið fyrir Vatnajökulsþjóðgarð með aðkomu Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði sem og annarra fagstofnana og sérfræðinga Vatnajökulsþjóðgarðs. Markmið þolmarkarannsóknarinnar er að meta ástand svæðisins og gera áætlun um hvernig tryggja megi sjálfbæra þróun þess. Könnuð eru þolmörk náttúru, innviða og menningarminja í ljósi vaxandi umferðar ferðafólks um svæðið. Verkefnið hófst árið 2021 en áætluð verklok eru í lok árs 2022.
Verkefnið er liður í Vörðu, sameiginlegu verkefni atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Varða byggir á heildstæðri nálgun í stjórnun áfangastaða og er Breiðamerkursandur einn af fjórum fyrstu áfangastöðunum sem unnið er með í verkefninu. Vörður eru merkisstaðir á Íslandi sem teljast einstakir á lands- og heimsvísu. Meginaðdráttarafl þeirra eru náttúrufyrirbæri og/eða menningarsögulegar minjar sem mynda sérstætt landslag eða landslagsheildir.
Sigrún Inga Sigurgeirsdóttir, Hugrún Harpa Reynisdóttir, Snævarr Guðmundsson, Jón Haukur Steingrímsson, Sara Kolodziejczyk, Sigríður Guðný Björgvinsdóttir, Þorvarður Árnason og Lilja Jóhannesdóttir 2023. Breiðamerkursandur – mat á náttúru, menningarminjum og innviðum. Unnið af Nýheimum þekkingarsetri og Náttúrustofu Suðausturlands fyrir Vatnajökulsþjóðgarð vegna Vörðu.