Á dögunum settu nemendur í fjölmiðlafræði í FAS á fót vef á samfélagsmiðlinum facebook sem ber heitið Ung rödd. Tilgangurinn er að skapa vettvang fyrir ungt fólk til að koma á framfæri skoðunum sínum á aðstæðum og málefnum ungmenna í Hornafirði. Með þeim hætti læra nemendur að takast á við viðfangsefni í samfélaginu á sínum forsendum og um leið fræða jafningja sína með aðstoð samfélagsmiðla.
Nú þegar hafa verið birtar fjöldi greina um ólík málefni eins og menntun, atvinnumál, húsnæðismál, og félagsmál ungmenna. Þar er að finna umfjöllun og gagnrýni á núverandi ástand en einnig leiðir til úrbóta. Varpað er ljósi á þann raunveruleika sem blasir við ungu fólki í Hornafirði en einnig vonir og væntingar um framtíðarsamfélag.
Framtakið er liður í fjölþjóðlegu verkefni á vegum Þekkingarsetursins Nýheima sem kallast Mótstöðuafl (Opposing Force) og styrkt af Evrópusambandinu, Erasmus+, til tveggja ára. Verkefnið miðar að því að finna leiðir til að virkja ungt fólk til samfélagsþátttöku sem leið til að sporna við atgervisflótta ungmenna af landsbyggðinni. Þar á meðal er áhersla á notkun samfélagsmiðla til þess að virkja ungt fólk og styrkja stöðu þess innan samfélagsins.