Nýtt samstarfsverkefni Nýheima þekkingarseturs og Sveitarfélagsins Hornafjarðar

Ungt fólk og byggðafesta er sameiginlegt viðfangsefni landsbyggðarsamfélaga. Þekkingarsetrið hefur nú um nokkurra ára skeið beint sjónum sínum að málefnum ungs fólks í sveitarfélaginu og unnið að valdeflingu ungmenna með fjölbreyttum hætti. Í gegnum ólík verkefni setursins hefur áherslan á ungt fólk fengið að njóta sín og starfsfólk setursins  framkvæmt fjölda rýnihópa, viðtala og viðhorfskannana meðal Hornfirskra ungmenna. Þar hefur mikið verið fjallað um félagsleg tengsl, búsetuval og viðhorf ungmenna til samfélagsins sem og tækifæra til atvinnu, menntunar og frístunda á staðnum. Ákveðinn rauður þráður hefur verið gegnumgangandi þegar kemur að samspili þessara þátta og áhrifum þeirra á ákvarðanir unga fólksins okkar um framtíð þeirra í sveitarfélaginu.

Á fundi bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Hornafjarðar 8. febrúar samþykkti bæjarstjórn að leggja verkefninu ungt fólk og efling byggðar til fjármagn sem nemur 25% stöðu verkefnastjóra á móti sama hlutfalli sem þekkingarsetrið leggur verkefninu til. Verkefnastjóri Nýheima þekkingarseturs mun leiða verkefnið í 50% stöðugildi frá 1. mars 2024, til eins árs í fyrstu. Á þessu fyrsta ári verður unnið að frekari fjármögnun svo tryggja megi framhald þess. Vinna að þeirri fjármögnun verður umfangsmikill hluti vinnu verkefnastjóra á fyrsta ári verkefnisins en með verkefninu verður sjónum beint enn frekar að þróun og sjálfbærni byggðar og samfélags í Sveitarfélaginu Hornafirði með ungt fólk í forgrunni. Með ólíkum verkþáttum verður unnið markvisst að því að stuðla að jákvæðri upplifun og  viðhorfi ungmenna til framtíðarinnar í sveitarfélaginu. Verkefnið mun fela í sér náið samstarf með ungu fólki og öðrum hagaðilum, svo sem fulltrúum atvinnulífsins og menntastofnanna á svæðinu. Í samstarfi við þessa aðila verður með ólíkum leiðum unnið að markmiði verkefnisins. Sem dæmi um viðfangsefni má nefna miðlun upplýsinga um fjölbreytt tækifæri til menntunar og atvinnu á svæðinu. Auk þess verður unnið að því að efla og viðhalda tengslum við ungmenni á staðnum, efla félagslega virkni þeirra og samfélagsþátttöku. Einnig verður áhersla lögð á að viðhalda tengslum við ungmenni sem fara annað til að afla sér frekari menntunar. Verkefnið er þróunarverkefni en fyrirmynd þess kemur frá Nordfjord í Noregi. Nálgun þess, áherslur og verkþættir eru í mótun og verða staðfærðir og sniðnir að aðstæðum og þörfum Hornfirðinga. Tilgangur verkefnisins er enn fremur að þróa og móta heildstæða nálgun á viðfangsefnið sem tekur mið af aðstæðum landsbyggðarsamfélaga á Íslandi og getur orðið öðrum sveitarfélögum landsbyggðarinnar fyrirmynd.

Fyrir frekari upplýsingar um verkefnið eða gagnlegar ábendingar má hafa samband við Kristínu Völu verkefnastjóra þess, kristinvala@nyheimar.is