Nýheimar þekkingarsetur ásamt Vísindafélagi Íslendinga bjóða Hornfirðingum
á málþing um ungt fólk og fjölbreytileika í Nýheimum fimmudaginn 20.september kl.16.
Allir velkomnir og heitt á könnunni.
Til umfjöllunar verða ýmis mál sem varða ungt fólk og stöðu þess
auk erinda um ungt fólk á Hornafirði og fjölmenningarmál í sveitarfélaginu.
Fyrirlesarar og erindi eru eftirfarandi:
Hugrún Harpa Reynisdóttir, forstöðumaður Nýheima: „Það virkar að tala við okkur.“
Hildur Ýr Ómarsdóttir, verkefnastjóri fjölmenningar í sveitarfélaginu Hornafirði: Ungt fólk í fjölmenningarsamfélaginu Hornafirði.
Jón Gunnar Bernburg, prófessor í félagsfræði við HÍ: Ungmenni og nærsamfélagið.
Berglind Rós Magnúsdóttir, dósent við menntavísindasvið HÍ: „Ég er bara ekki þessi týpa.“ Skólaval, persónuvirði og tilvistarlegt öryggi meðal framhaldsskólanema.
Þórólfur Þórlindsson, prófessor emeritus: Staða ungs fólks á Íslandi.
Vísindafélag Íslendinga var stofnað 1. desember 1918, sama dag og Ísland varð fullvalda ríki, með það í huga að öflug
vísindastarfsemi væri þjóðinni nauðsynleg til að dafna. Meðal markmiða félagsins er að styrkja stöðu vísinda í íslensku samfélagi og menningu, m.a. með því að stofna til umræðu og samræðna fólks úr ólíkum fræðigreinum sem starfar á ýmiss konar vettvangi.
Málþingið er annað í röð sex málþinga um vísindi og samfélagslegar áskoranir sem Vísindafélag Íslendinga hefur forgöngu um á árinu í tilefni af aldarafmæli bæði félagsins og fullveldis Íslands. Á fyrsta málþinginu sem haldið var í Reykjavík í apríl voru vísindasaga og veirurannsóknir til umfjöllunar. Í október verða svo ferðamál til umfjöllunar á Akureyri en á síðari málþingum ársins verður m.a. hugað að máltækni og umhverfismálum.
Annar liður í afmælisdagskránni er samstarf við Vísindavefinn um dagatal íslenskra vísindamanna þar sem umfjöllun um fræðimenn birtist daglega allt árið: Markmiðið er að bregða upp svipmynd af fjölbreyttri flóru blómlegs rannsóknastarfs hérlendis og þýðingu þess fyrir samfélagið allt.