Nýheimar þekkingarsetur er aðili að nýju Evrópuverkefni sem styrkt er af Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins. Ásamt setrinu koma fjórar aðrar stofnanir að verkefninu frá Svíþjóð, Hollandi, Spáni og Búlgaríu. Fyrsti fundur verkefnisins fór fram í fjarfundarformi í dag en fyrirhugað var að halda fundinn með öllum samstarfsaðilum á Höfn.
Legends verkefnið hefur enn ekki fengið nafn á íslensku en markmið verkefnisins er að beita nýstárlegum námsaðferðum við hæfniþróun einstaklinga í gegnum evrópska arfleið úr þjóðsögum og goðsögnum enda hefur sýnt sig á síðustu árum að áhugi á goðsögnum er gífurlegur um allan heim og áhrif á samtímamenningu mikill, t.d. eru vísanir í norræna goðafræði algengar í vísindaskáldskap og fantasíu bókmenntum og ekki síst Marvel heiminum hinum japanska Manga heimi.
Í Legends verkefninu mun menningararfleið í Evrópu sem tengist goðsögum og þjóðsögum vera nýtt í námsefni sem byggist á gildi þessara sagna. Sögunum verður skipt í fjóra megin hæfni þ.e. að vera virkur samfélagsþegn, frumkvöðlastarf, persónulegur þroski og menningarvitund og tjáning.
Fyrsti verkþátturinn snýr að því að skoða evrópskan menningararf og munu Eik og Kristín Vala skoða íslenskar þjóðsögur og sagnir sem styðja við námsferli og lykilþróun í hæfni einstaklinga.
Verkefnið er til tveggja ára en lokaafurð verkefnisins verður meðal annars tölvuleikur byggður á þjóðsögunum.
Mikil eftirvænting er í hópnum og hlökkum við til að kynna verkefnið frekar.