Á dögunum var haldin glæsileg uppskeruhátíð og matarmarkaður Matsjárinnar á Hótel Laugarbakka á Norðurlandi vestra.

Um var að ræða lokaviðburð 14 vikna “masterclass” námskeiðs sem fór af stað í byrjun janúar 2022. Lagt var upp með að veita fræðslu til smáframleiðenda matvæla til að styðja þá í að auka verðmætasköpun, styrkja stöðu sína, efla framleiðslu, auka sölutekjur og  sjálfbærni í rekstri.

Á þessu 14 vikna tímabili voru haldnir sjö fræðslufundir og sjö heimafundir sem fóru fram á netinu. Á síðasta heimafundinum var svo uppskeruhátíð verkefnisins og matarmarkaður þar sem þátttakendur gátu loksins hist í raunheimum og gafst gestum tækifæri til að kynna sér og kaupa vörur þeirra.

Um 75 framleiðendur af öllu landinu fóru í gegnum Matsjánna í ár og hafði um helmingur tök á að taka þátt í uppskeruhátíðinni og matarmarkaðinum á Hótel Laugarbakka til að uppskera eftir vinnu vetrarins.

Samstarfsaðilar verkefnisins eru Samtök smáframleiðenda matvæla, SSNV, SSNE, Austurbrú, Vestfjarðarstofa, SSV, SASS, Heklan atvinnuþróunarfélag og samtök sveitarfélaga á Höfuðborgarsvæðinu.

Ráðgjafafyrirtækið RATA sá um að leiða verkefnið fyrir hönd samstarfsaðilanna. Matsjáin var styrkt af Matvælasjóði.

\"\"

Hópur þátttakenda uppskeruhátíðar Matsjárinnar á Hótel Laugarbakka.

Sjá fréttainnskot um uppskeruhátíðina hér