Um þessar mundir stendur yfir námskeið í Nýheimum sem nefnist Vertu þú sjálfur. Það er ætlað ungmennum á grunn- og framhaldsskólastigi sem vilja öðlast sjálfstraust til að stíga fram, taka til máls, fara út fyrir kassann og vera það sjálft.
Námskeiðið er liður í verkefni sem kallast LUV: Lýðræðisvitund og valdefling ungmenna á landsbyggðinni. Verkefnið á rætur að rekja í rannsókn sem sýnir að ungt fólk í Hornafirði er að miklu leyti óvirkt og skortir hlutverk á staðnum. Sérstaklega á það við um aldurinn 15 – 30 ára sem upplifir sig sem afskiptan og áhrifalausan í samfélaginu.
Verkefnið er tvíþætt: Annarsvegar könnun meðal ungs fólks þar sem grennslast er fyrir um hugmyndir þeirra um hlutverk sitt í lýðræðissamfélagi. Einnig að kanna þarfir þeirra fyrir sjálfstyrkingu og með hvaða hætti verði best að henni staðið. Hins vegar að standa fyrir lýðræðisfræðslu og valdeflingu þar sem þátttakendum kennt að hafa áhrif á umhverfi sitt. Tilgangur verkefnisins er að vekja ungt fólk til umhugsunar um hlutverk sitt í samfélaginu og hvetja það til þátttöku.
Námskeiðinu er skipt í fimm þætti og í vikunni voru liðlega 40 ungmenni saman komin í Nýheimum til að taka þátt. Leiðbeinandi í þessum fyrsta þætti var Kristín Tómasdóttir rithöfundur sem fjallaði um sjálfsmyndina og kynnti leiðir til að byggja upp jákvæða sjálfsmynd. Í öðrum þætti kenndi Gísli Marteinn Baldursson fjölmiðlamaður ræðumennsku. Í þriðja þætti, sem hefst á mánudaginn næstkomandi, fjallar Margrét Gauja Magnúsdóttir uppeldis- og menntunarfræðingur um áhrif staðalmynda á sjálfsmyndina. Hún fer í leiki með krökkunum og lætur þau setja sig í spor annarra og fást við samkenndina. Í fjórða þætti sýnir Agnar Jón Egilsson leikari aðferðir til að brjóta sér leið út fyrir þæginda hringinn. Og í fimmta og síðast þætti fjallar Guðmundur Ari Sigurjónsson tómstundafræðingur um lýðræði og leiðtogahæfni.
Verkefnið er styrkt af Byggðarannsóknasjóði en sjóðurinn hefur þann tilgang að efla byggðarannsóknir og bæta í þekkingargrunn fyrir stefnumótun og aðgerðir í byggðamálum.